• New national hospital

Af ályktunum og greinargerðum aðalfundar Læknafélags Íslands

24. september 2006

Nokkurt fjaðrafok hefur verið í fjölmiðlum undanfarið vegna ályktana nýlegs aðalfundar Læknafélags Íslands.

Reyndar væri nær að segja að fjaðrafokið hafi að mestu komið til vegna greinargerða sem fylgdu sumum ályktana fundarins. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að greinargerð sem slík er ekki borin upp til atkvæða. Um ályktunartillögu gegnir öðru máli. Henni er ýmist vísað frá, hún samþykkt óbreytt eða með tilteknum breytingum. Það er í þessu ljósi sem ég tel nauðsynlegt að árétta að ályktun aðalfundar um sjálfstæði læknastéttarinnar er svohljóðandi: "Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn að Egilsstöðum 1.-2. september 2006 áréttar grein 2.2 í lögum félagsins, "Að standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna" og hvetur stjórn félagsins til að standa vörð um atvinnufrelsi lækna með því að stuðla að því að læknar geti beitt þekkingu sinni og veitt þjónustu á fleiri en einum vinnustað og verði ekki háðir einum vinnuveitenda. Þá er nauðsynlegt að stjórn LÍ vinni að því að efla hlut lækna í stjórnun og stefnumótun heilbrigðisstofnana."

Í annan stað ályktuðu læknar:

"Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn að Egilsstöðum 1.-2. september 2006 varar við því alræðisvaldi sem heilbrigðisráðherra og forstjórum heilbrigðisstofnana er ætlað skv. drögum að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu. Það leiðir til skerðingar á frelsi fólks til að leita sér lækninga þar sem það helst kýs ef það vill njóta sjúkratryggingar og kemur í veg fyrir samkeppni milli þjónustuaðila. Nauðsynlegt er að draga úr þeirri einokun sem þegar ríkir og koma í veg fyrir enn frekari einokun. Samkeppni veitir aðhald og stuðlar að framförum og betri þjónustu."

Í ljósi þessara ályktana vekur það nokkra athygli að í ályktun stjórnarnefndar LSH frá 14. september sl. skuli að finna eftirfarandi tilvitnun: "Stjórnarnefnd Landspítala háskólasjúkrahúss undrast ályktanir Læknafélags Íslands sem samþykktar voru á aðalfundi þess nýlega um starfsemi sjúkrahússins og framtíðaruppbyggingu. Stóryrðum félagsins um stjórnendur LSH er vísað á bug og lýst fullum stuðningi við þá í vandasömum verkefnum. Einnig vekur furðu að Læknafélag Íslands gangi gegn ítrekuðum samþykktum læknaráðs, hjúkrunarráðs og starfsmannaráðs LSH um nauðsyn þess að reisa nýtt háskólasjúkrahús." Með fullri virðingu fyrir stjórnarnefnd LSH þá veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið með þessari ályktun. Því fer fjarri að læknar hafi nokkuð á móti byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Allir sem starfa á Landspítala eða þurfa að sækja þangað þjónustu sína gera sér vel grein fyrir því óhagræði sem fylgir því að reka sjúkrahús á tveimur stöðum. Mikilvægt er vegna þessa að hraða uppbyggingu nýs sjúkrahúss á einum stað. Þó er rétt að minna á að nýtt sjúkrahúss er meira en húsnæðið eitt. Kjarni hvers sjúkrahúss er auðvitað starfsfólkið sem þar vinnur, þekking þess og færni. Hvað sem líður byggingu háskólasjúkrahúss þá er það skoðun aðalfundar Læknafélags Íslands að nauðsynlegt sé að nýta kosti einkareksturs í auknum mæli í heilbrigðiskerfinu almenningi til hagsbóta.

Ekki er um það deilt að Íslendingar eyða nú þegar gífurlegum fjármunum til reksturs heilbrigðiskerfisins. Fyrirsjáanlegt er að sá kostnaður mun aukast verulega á næstu árum og áratugum. Þjóðin er að eldast, ný lyf og aðferðir í læknisfræði eru dýr. Brýna nauðsyn ber til að nýta þá hagræðingu og aðhald sem samkeppni veitir á þessu sviði líkt og á öllum öðrum sviðum þjóðlífsins. Við höfum einfaldlega ekki efni á öðru. Ég leyfi mér að nefna samkeppni milli háskóla í okkar fámenna samfélagi í þessu samhengi. Augljóst er að sú samkeppni sem Háskóli Íslands hefur m.a. fengið frá Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst hefur eflt Háskóla Íslands. Á sama hátt myndi samkeppni einkarekinna heilsugæslustöðva, læknastofa og sjúkrahúsa efla íslenska heilbrigðisþjónustu. Hvað varðar kostnað við þjónustuna þá ætti kaupandi hennar, þ.e. ríkið, að fagna aukinni samkeppni og hagkvæmni. Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld setji lög og reglur um staðla í anda heiðarlegrar samkeppni og fagmennsku. Íslendingar vilja góða heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að tryggja stoðir almannatryggingakerfisins og að við njótum þess öll óháð efnahag. Vel kæmi til greina að endurvekja hugmyndafræði sjúkrasamlaganna þannig að hver einstaklingur sé meðvitaður um þann hluta skattgreiðslna hans sem rennur til heilbrigðismála. Kostnaðargreina þarf öll verk í heilbrigðisþjónustunni og kaupa þjónustu þar sem hún er ódýrust að öðru jöfnu. Mikilvægt er að fjármagnið fylgi sjúklingnum og fari á þann stað sem veitir viðkomandi þjónustu. Heilbrigðisstofnanir á föstum fjárlögum eru tímaskekkja og til að mynda ein af ástæðum fjárhagsvanda Landspítalans. Full ástæða er til að umræða um þennan mikilvæga málaflokk sé málefnaleg. Forðast ber persónulegar deilur og fljótfærnislegar upphrópanir. Heilbrigð skoðanaskipti í vinsemd munu leiða okkur fram á veg.