• New national hospital

Af hverju þarf að byggja upp sameinaðan Landspítala?

27. desember 2007

Undanfarið hefur lítið farið fyrir umræðu um nauðsyn þess að byggja nýjan sameinaðan Landspítala. Þess í stað hefur borið meira á umræðu um að styrkja stöðu nágrannasjúkrahúsanna og hlúa að einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Við nefnum hér nokkur atriði til rökstuðnings því að nauðsynlegt sé að styrkja Landspítalann og flýta byggingu sameinaðs Landspítala eins og frekast er unnt. 

 

Ófullnægjandi húsnæði gjörgæsludeildar
Hér verður einungis fjallað um aðstöðuleysi þeirra deilda sem við þekkjum best til, það er gjörgæsludeildar og hjarta- og lungnaskurðdeildar við Hringbraut. Margar aðrar sérgreinar og deildir búa einnig við aðstöðuleysi en um það eru aðrir hæfari að tjá sig. 

 

 

Á Landspítala við Hringbraut er gjörgæsludeild staðsett í elsta hluta sjúkrahússins, „gamla spítala“ sem byggður var 1930. Það húsnæði hefur reynst vel en er barn síns tíma og orðið óhentugt og of lítið fyrir slíka starfsemi. Undanfarin ár hefur sjúklingum sem þurfa gjörgæslumeðferð farið fjölgandi, meðalaldur þeirra hækkað og þeir eru veikari en áður var. Þetta er þróun sem á sér stað alls staðar í hinum vestræna heimi. Á gjörgæsludeild vistast veikustu sjúklingar spítalans hverju sinni og þarf að jafnaði plássfrekar vélar til að styðja við og rannsaka líffærastarfsemi þeirra. Má þar nefna lyfjadælur, öndunarvél, nýrnavél, hjartaómsjá, ósæðardælu, kælitæki og jafnvel hjarta- og lungnavél. Þá kemur oft fyrir að framkvæma þurfi einfaldari skurðaðgerðir á sjúklingunum inni á gjörgæsludeildinni.

 

Þetta kallar á aukið rými í kringum sjúklinginn en eins og nú er háttað hjá okkur þá eru 14 fm að jafnaði ætlaðir hverjum sjúklingi. Fyrir um 15 árum voru settir alþjóðlegir staðlar um að slíkt pláss þyrfti að lágmarki að vera 25 fm. Fyrir utan þrengsli í kringum sjúkrarúm er svokölluðu baklandi deildarinnar mjög ábótavant. Þar er t.d. átt við geymslur fyrir dýr tæki, en þau eru geymd á víð og dreif þar sem tækjageymsla deildarinnar er einungis um 9 fm. Lyfjaherbergi deildarinnar er aðeins 2,4 fm en á deildinni byggist meðferð að miklu leyti á flóknum lyfjagjöfum. Engin aðstaða er til fundahalda þrátt fyrir að meðferð mikið veikra sjúklinga sé þverfagleg teymisvinna sem margir koma að. Aðstaða til kennslu er engin þó að á deildina komi margir nemendur eins og vera ber á háskólasjúkrahúsi. Í fyrrnefndum stöðlum er gert ráð fyrir 80 fm heildarflatarmáli á sjúkrarúm, þ.e. með baklandi, en á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut er sú tala einungis 25 fm. Við vinnum að því að fá samþykki fyrir bráðabirgðahúsnæði sem leysa á úr brýnasta vanda deildarinnar.

Þrengslin á gjörgæsludeildinni ásamt skorti á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum gera það að verkum að æ oftar þarf að fresta skipulögðum, stórum skurðaðgerðum þar sem vitað er að sjúklingar þurfa gjörgæslumeðferð eftir á. Þetta bitnar einkum á hjartaskurðaðgerðum. Þá er aðstaða starfsfólks bágborin en engu að síður þykir því vænt um starf sitt og deild og hefur sýnt ótrúlega þolinmæði við óviðunandi aðstæður. Fyrir utan það að gera starfsfólki erfitt fyrir með að vinna störf sín valda þrengslin því að erfiðara er að virða friðhelgi sjúklinga og stundum þarf að takmarka umgang aðstandenda sem skiljanlega vilja vera sem mest hjá bráðveikum ættingja sínum. Þrengslin valda því einnig að sýkingarhætta eykst, bæði vegna þess að starfsfólk á erfiðara með að varna smiti og einnig vegna óeðlilegrar nálægðar sjúklinga sem oft eru sýktir eða viðkvæmir fyrir sýkingum frá öðrum sjúklingum. 

Ófullnægjandi aðstaða fyrir hjartaskurðsjúklinga
Aðlægt „gamla spítala“ er skurðstofugangur með 8 skurðstofum. Staðsetningin sem slík er góð vegna nálægðar við gjörgæsludeild og legudeild hjarta- og lungnaskurðdeildar en þrengslin eru mikil, skurðstofur of fáar og litlar. Við hjartaskurðaðgerðir eru notuð mörg flókin og fyrirferðarmikil tæki sem eru svæfingavél, hjartaómsjá, hjartalungnavél, blóðþvottavél, flæðismælir, hita- og kælivél, ljósgjafar, brennslutæki af mörgum gerðum auk einnota hluta og verkfæra svo hundruðum skiptir í hverri aðgerð. Oft þarf ennþá fleiri tæki eins og ósæðardælu, röntgentæki og jafnvel skammtíma hjálparhjarta með tilheyrandi stoðtækjum. Við hverja hjartaskurðaðgerð vinna að jafnaði 10 starfsmenn samtímis inni á skurðstofu og þurfa þeir allir sitt athafnarými. Þá er baklandið yfirfullt af tækjum, stórum og smáum, en geymslu- og lagerpláss fyrir tæki og einnota vöru er langt undir því sem nauðsynlegt er. Stærsta skurðstofan er notuð fyrir hjarta- og brjóstholsskurðaðgerðir, en hún er aðeins 50 fm. Lágmarksstaðall fyrir hjartaskurðstofu í dag er 70 fm en æskileg stærð fyrir nýtísku hjartaskurðstofu er 80-100 fm. Fram að þessu hefur aðeins ein skurðstofa fengist fyrir hjartaskurðaðgerðir og það hefur valdið óhóflegri yfirvinnu starfsfólks svo árum skiptir. Nú stendur til að útbúa aðra skurðstofu til viðbótar fyrir hjartaskurðaðgerðir en sú skurðstofa er þó aðeins 36 fm. 

Þessi ófullnægjandi aðstaða á skurðstofum og gjörgæslu gerir það að verkum að biðlistar myndast. Það sem af er árinu hefur þó tekist að gera mun fleiri aðgerðir en allt fyrra ár og er það mikilli útsjónarsemi og dugnaði starfsfólks að þakka. Samt bíða nú tugir sjúklinga eftir hjartaskurðaðgerð. Sumir þeirra bíða á hjartadeild sem er mjög bagalegt því það þrengir að þeirri mikilvægu starfsemi sem þar á að fara fram. Legupláss fyrir hjartasjúklinga eru of fá og enn þurfa flestir mjög veikir sjúklingar að liggja með öðrum á stofu, sviptir friðhelgi einkalífs. Þrátt fyrir þrengsli á legudeild hjarta- og lungnaskurðdeildar eru þar einnig vistaðir augnskurðsjúklingar. Frábær samvinna starfsfólks þessara sérgreina hefur gert þetta mögulegt þrátt fyrir alla annmarka. 

Óviðunandi flutningar sjúklinga milli Fossvogs og Hringbrautar
Það að hafa meginstarfsemi Landspítala annars vegar í Fossvogi og hins vegar við Hringbraut hefur gífurlega ókosti í för með sér. Sérgreinaskipting gerir það að verkum að vissar rannsóknir og aðgerðir eru einungis framkvæmdar á öðrum hvorum staðnum. Þetta kallar á tíða flutninga sjúklinga milli húsa og oft bitnar þetta á þeim sem síst skyldi, veikustu sjúklingunum. Til dæmis getur þurft að flytja sjúklinga með innvortis blæðingar frá Hringbraut til Fossvogs til æðamyndatöku og sérstakrar meðferðar á röntgendeild og fyrir kemur að flytja þarf fárveika sjúklinga með svæsna hjarta- og lungnasjúkdóma frá Fossvogi á Hringbraut til hjartaskurðaðgerðar, eða meðferðar í hjarta- og lungnavél. Þá má nefna að margir sjúklingar, einkum þeir sem lenda í alvarlegum slysum, þurfa oft á þjónustu að halda frá fleiri sérgreinum en þeim sem hafa aðsetur á því sjúkrahúsi sem vistar sjúklinginn. Dæmi um það er þegar sjúklingur slasast bæði á höfði og brjóstholi. Heilaskurðlækningar eru staðsettar í Fossvogi en hjarta- og brjóstholsskurðlækningar við Hringbraut. Þá kemur oft fyrir að flytja þarf gjörgæslusjúklinga milli gjörgæsludeildanna í Fossvogi og við Hringbraut ef fullt er á annarri deildinni. Allt gengur þetta einhvern veginn en veldur sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki miklum óþægindum og fyrir kemur að öryggi sjúklinga er ógnað í þessu sambandi. 

Enn eitt alvarlegt vandamál tengt flutningi á sjúklingum eru lyftur í „gamla spítala“ en þær eru gamlar og allt of litlar til að flytja mikið veika sjúklinga. Þessar lyftur þarf að nota við flutninga til dæmis frá gjörgæsludeild sem er á 2. hæð, til röntgendeildar sem er í kjallara spítalans og eins þegar sjúklingar eru fluttir milli Fossvogs og Hringbrautar. Önnur lyftan er 125 sm á breidd og 239 sm á lengd og hin er 124 sm á breidd og 260 sm á lengd. Gjörgæslusjúklinga þarf að flytja liggjandi í rúmi og sjúkrarúm er 92 cm á breidd og 215 cm á lengd. Þessar lyftur rúma því í raun aðeins sjúkrarúm og starfsfólk en ekki tækin sem eru sjúklingnum nauðsynleg. Starfsfólk hefur þróað með sér ótrúlega lagni til að takast á við þessar erfiðu aðstæður en fyrir kemur að öryggi sjúklinga er ógnað af þessum sökum. 

Naum fjárframlög til Landspítalans og skortur á hjúkrunarfræðingum
Við getum ekki látið hjá líða að nefna fjárframlög til Landspítalans þótt erindi okkar sé fyrst og fremst að vekja athygli á aðstöðuvandanum. Talið er að sparnaði sem nást átti með samlegðaráhrifum af sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans hafi verið náð árið 2005 en síðan þá hefur kostnaður vaxið. Þrátt fyrir það sauma stjórnvöld að spítalanum með óraunhæfum kröfum um sparnað. Hvernig geta stjórnmálamenn ætlast til að hægt sé að minnka hlutfallslega fjárframlög til stofnunarinnar á sama tíma og fólki fjölgar hér, meðalaldur hækkar, nýrri tækni og lyfjameðferð fleygir fram og kröfur um þjónustu aukast? Sjálfsagt má einhvers staðar hagræða betur en við teljum að á Landspítalanum ríki almennt ráðdeildarsemi og stjórnendur og allt starfsfólk leggi sig fram um að veita skjólstæðingum nákvæmlega þá þjónustu og meðferð sem þeir þarfnast hverju sinni.

Skortur á hjúkrunarfræðingum er stórt vandamál sem Landspítali glímir við. Það vandamál er margþætt og ekki tilgangur eða á færi undirritaðra að kryfja það til mergjar hér. Við vonumst til að stjórnendur hjúkrunar leiti allra leiða til að laða að fleiri góða hjúkrunarfræðinga til starfa á þeim frábæra vinnustað sem Landspítali er í raun. Hins vegar teljum við að skortur á hjúkrunarfræðingum tengist að einhverju leyti aðstöðuleysi því sem hér er fjallað um því það bitnar að miklu leyti á starfsaðstöðu þeirra. Án efa skiptir einnig máli að hjúkrunarfræðingum bjóðast betri kjör á öðrum stofnunum. Að þessu þarf að hyggja.

Frekari sameining sparar fé og krafta
Það er augljóslega mikið óhagræði fólgið í því að reka Landspítala á mörgum stöðum. Áætlað hefur verið að með sameiningu starfsemi sem nú er í Fossvogi og við Hringbraut gætu sparast umtalsverðir fjármunir. Hagræðið felst til dæmis í skipulagningu á vöktum starfsfólks og í starfsemi stoðdeilda eins og rannsókna- og röntgendeilda. 

Hjá svo fámennri þjóð teljum við augljósa ókosti því tengda að dreifa sérhæfðri starfsemi eins og á við um ákveðnar skurðaðgerðir og rannsóknir eins og verið hefur í umræðunni. Við Íslendingar erum aðeins rúmlega 300.000 talsins. Samt tekst okkur að sinna nær allri sérhæfðri læknisþjónustu sem þörf er á, ef frá eru taldir líffæraflutningar annarra líffæra en nýrna og mjög flóknar hjartaaðgerðir hjá börnum. Almennt er talið, eins og t.d. í Svíþjóð, að til þess að reka sérhæfðan háskólaspítala þurfi s.k. upptökusvæði hans að vera 1 milljón manns svo sjaldgæfari og flóknari tilfelli séu nægjanlega mörg til að læknar og annað starfsfólk nái að halda færni og æfingu í meðferð þeirra. Við teljum því afar mikilvægt að sérhæfðari starfsemi verði ekki dreift heldur verði hún áfram á Landspítalanum. 

Hinsvegar er sjálfsagt að skoða hvort flytja eigi aðra einfaldari starfsemi út frá Landspítalanum og þetta segjum við með fullri virðingu fyrir nágrannasjúkrahúsum og einkaframtaki. Þrátt fyrir þrengsli og erfiða aðstöðu á Landspítalanum keppist starfsfólk við að veita góða, fagmannlega þjónustu og nær undraverðum árangri miðað við alþjóðlega staðla. 

Nýir spítalar spretta upp í löndunum í kringum okkur á meðan samkeppnisaðstaða okkar versnar vegna slakrar aðstöðu hjá okkur á Landspítalanum. Útrás í heilbrigðisþjónustu er nú aðeins fjarlægur draumur og erfitt er að halda stöðu okkar hvað varðar gæði í heilbrigðisþjónustunni í samanburði við önnur lönd. Er það ásættanlegt? 

Við erum rík þjóð sem vill og hefur efni og getu til að reka bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Við vonum að ráðamenn beri gæfu til að flýta eins og kostur er því brýna verkefni að reisa rúmgóðan og sameinaðan Landspítala því aðstaðan er ófullnægjandi núna og mun fara versnandi á þeim árum sem tekur að reisa nýjan spítala. Við bíðum með óþreyju eftir að sjá og heyra áætlanir heilbrigðisráðherra og nefnda hans um hvernig brugðist verði við vandamálum þeim sem hér eru nefnd. 

Þessi mál þola enga bið.