Áhersla á þjónustu við hönnun nýs Landspítala

27. september 2015

Í fréttum RÚV Sjónvarps í kvöld var sagt frá þeim nýstárlegu aðferðum sem notaðar eru við hönnun nýs Landspítala. Meðal annars eru notaðir legókubbar við skipulag hönnunarinnar. Með þessari aðferð, sem fundin var upp hjá Toyota, er fyrst hugað að því hvað sé best fyrir sjúklinginn.

Rætt var við Chris Backous, hjá Virginia Mason Medical Center í Seattle í Bandaríkjunum, sem hefur stýrt hópi starfsmanna Landspítala í hönnunarvinnunni.

„Brýnt er að greina vel þarfir sjúklinga með það að markmiði að bæta þjónustu. Síðan fái hópur starfsmanna frí frá hefðbundinni vinnu til að setjast niður við hönnunina með það að markmiði að þjónustan verði sem best,“ segir Backous.

Hann segir jafnframt að þetta muni leiða til aukinnar hagræðingar í rekstri.

Ólafur Hersisson arkitekt hjá Hornsteinum, sem vinnur fyrir Corpus hópinn að hönnun spítalans.
„Hérna erum við til dæmis að horfa á það hvað væri draumurinn að hafa á þessari nýju legudeild,“ segir Ólafur.

Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Landspítala, var ánægð með hönnunarvinnuna.
„Hvernig við getum gert það betra og skilvirkara og hvernig húsið getur síðan stutt okkur í vinnunni við að bæta heilsu sjúklinganna okkar,“ segir Guðrún.


Frétt RÚV Sjónvarps má sjá hér og einnig var frétt um sama mál á ruv.is