• New national hospital

Áhugaverð sambúð

23. september 2006

Athyglisverðar upplýsingar komu fram í frétt á forsíðu Morgunblaðsins í gær, um að við hönnun nýs hátæknisjúkrahúss við Hringbraut væri gert ráð fyrir sérstöku göngudeildahúsi, þar sem búast mætti við að deildir yrðu einkareknar.

Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækja og eigna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) segir í blaðinu að hugmyndin sé að draga að spítalanum þá starfsemi, sem hafi verið að byggjast upp úti í bæ. Þannig verði læknastofum og öðrum í heilbrigðisgeiranum, sem áhuga hafi á, boðið að vera með einkarekstur í göngudeildahúsinu.

Þetta eru merkilegar hugmyndir. Gera verður ráð fyrir að þær séu settar fram með vitund og vilja heilbrigðisyfirvalda, sem eru þá kannski opnari fyrir einkarekstri í heilbrigðiskerfinu en verið hefur undanfarin ár.

Hagurinn af því að hafa einkareknar göngudeildir á LSH er ótvíræður. Ingólfur Þórisson bendir á einn kostinn; að LSH er háskólasjúkrahús og gott er fyrir nema í heilbrigðisgreinum að kynnast þar ekki einvörðungu ríkisrekstri á heilbrigðisþjónustu, heldur líka einkarekstri.

Gera verður ráð fyrir að mikið hagræði sé að því fyrir sjúklinga að geta sótt á einn stað þjónustu, sem áður hefur verið dreifð. Sama á auðvitað við um heilbrigðisstarfsfólk, einkum lækna, sem bæði hafa unnið hjá LSH og á einkareknum stofum.

Út frá sjónarmiðum um sparnað og hagræðingu í heilbrigðisþjónustunni hlýtur að geta verið eftirsóknarvert að bjóða t.d. út göngudeildarþjónustu og nýta þannig hugkvæmni einkaframtaksins til að finna hagkvæmustu leiðina að skilgreindum markmiðum.

Og af hverju ætti að útiloka þann möguleika, að samkeppni færi fram undir sama þaki, milli einkarekinna læknastofa eða á milli ríkisrekinnar þjónustu og einkarekinnar? Það vantar samkeppni í heilbrigðiskerfið og af hverju ætti hún ekki að geta farið fram innan nýs spítala, eins og á milli hans og annarra stofnana eða fyrirtækja?

Hlutur einkarekstrar í heilbrigðisþjónustunni er of lítill og m.a. þess vegna borga Íslendingar alltof mikið fyrir heilbrigðisþjónustu miðað við ýmsar aðrar þjóðir. Það vantar samkeppni í heilbrigðisþjónustunni, ekki bara til að ná niður kostnaði, heldur líka til að bæta þjónustu við sjúklinga og stytta biðlistana.

Þessi atriði hafa verið deiluefni á milli heilbrigðisyfirvalda, stjórnenda LSH og lækna, a.m.k. sumra lækna, eins og nýlegar ályktanir aðalfundar Læknafélags Íslands sýna.

Getur verið að nýr Landspítali, sem býður einkaframtakið velkomið, geti stuðlað að sáttum í þessum efnum?