Fréttir


Allir fjórir hóparnir lögðu inn tillögur um hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ

26. janúar 2022

Opnað hefur verið fyrir tillögur vegna fullnaðarhönnunar á húsi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. 

Bygging Háskóla Íslands á Hringbrautarsvæðinu er hluti af uppbyggingu á nýjum Landspítala, en gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands flytji nær alla starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs í endurbættan Læknagarð og nýbyggingu sem mun rísa sunnan nýs meðferðarkjarna og tengjast Læknagarði sem er þar fyrir. Auk nýbyggingarinnar, sem er um 8.300 m2, , á að breyta skipulagi og starfsemi í Læknagarði.

Fjórir hópar höfðu tilkynnt um þátttöku í forvalinu en þeir eru leiddir af eftirfarandi fyrirtækjum; Arkþing Nordic, Corpus3 ehf, Mannvit og Verkís.

Allir fjórir hóparnir lögðu inn tillögur um hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Matsnefndin mun á næstu tveimur til þremur vikum meta tillögurnar og í kjölfarið verða verðtilboð hópanna í vinnu við fullnaðarhönnun opnuð. Hagstæðasta tilboð tekur mið af báðum þáttum.