Allt á fullri ferð hjá hönnunarsviði NLSH

15. febrúar 2021

Mörg stór verkefni eru á borði starfsmanna hönnunarsviðs NLSH.

„Nýlega voru opnuð tilboð í fullnaðarhönnun á bílakjallara undir Sóleyjartorgi þar sem tilboð bárust frá níu hópum. Það var gaman að sjá hversu mikill áhugi er á þessu tiltekna verkefni“, segir Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri hönnunarsviðs NLSH.


Fullnaðarhönnun meðferðarkjarna, sem er stærsta nýbyggingin á spítalareitnum, lýkur fljótlega en þegar um flókin mannvirki er að ræða þá er í mörg horn að líta og oft nauðsynlegt að laga hönnun að nýjum áskorunum. Gert er ráð fyrir að meðferðarkjarni verði risinn árið 2025.
Einnig má nefna önnur verkefni svo sem fullnaðarhönnun á rannsóknahúsi LSH sem rísa mun fyrir sunnan meðferðarkjarna. Þar verða rannsóknastofur spítalans til húsa og verða að mestu sameinaðar á einn stað. Gert er ráð fyrir að rannsóknahúsið verði fullbyggt árið 2025. Fyrir vestan rannsóknahúsið mun rísa bílastæða- og tæknihús og búið er að ljúka við útboðsgagnagerð vegna lokaðs alútboðs á bílastæða og tæknihúsinu.

Það er í nógu að snúast hjá starfsfólki hönnunarsviðs þessa daga, segir Sigríður ennfremur.