• New national hospital

Aprílgabb borgarfulltrúa

5. apríl 2012

Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi ritaði pistil um nýjan Landspítala á bloggsíðu sína 3. apríl sl. Í pistlinum er að finna ýmsar rangfærslur og staðreyndavillur og virðist hann gera sér leik að því að taka tölur úr samhengi. Gísli Marteinn heldur því blákalt fram að til standi að byggja 290 þúsund fermetra spítala og að sameinaður spítali verði þrisvar sinnum stærri en núverandi byggingar við Hringbraut og í Fossvogi.

Þetta er ótrúlegur málflutningur og hefði sómt sér betur til birtingar 1. apríl. Hið rétta er að áformað er að byggja 76 þús. fermetra í fyrsta áfanga til ársins 2018. Heildarstærð bygginga á Hringbraut að meðtöldum eldri byggingum sem áfram verða nýttar verður þá 132 þús. fermetrar eftir þennan áfanga og ráðgert er að öll starfsemi flytjist úr Fossvogi á þessum tíma.

Í síðari áföngum er hugsanlegt að byggja 56 þús. fermetra og gæti mesta byggingarmagn spítalans orðið 188 þús. fermetrar, ef þörf krefur, en aldrei meira en það. Þörf er reyndar lykilhugtak þegar rætt er um endurnýjun Landspítala. Ný tækni, eldri þjóð og nútímasjúkrahúsþjónusta gera nýbyggingar spítalans bráðnauðsynlegar. Með byggingu fyrsta áfanga spítalans á að sameina á einum stað alla bráðastarfsemi spítalans og verður hver fermetri nýttur.

Gísli Marteinn segir í bloggpistli sínum: „Ég skal fúslega játa að það hefur tekið mig tíma að átta mig á ofangreindum staðreyndum“. Undarleg töf það, því að staðreyndir málsins liggja skýrt og greinilega fyrir í opinberum gögnum, m.a. hjá skipulagsráði sem Gísli Marteinn situr sjálfur í, og á vef Nýs Landspítala (). Hið sorglega er að eftir hina löngu yfirlegu Gísla Marteins er niðurstaða hans röng og þar af leiðandi villandi.

Það er áhyggjuefni þegar stjórnmálamenn keppast við að gera stærstu mál þjóðarinnar að pólitískum bitbeinum og gera sér leik að því að fara rangt með staðreyndir. Með pistli sínum sýnir Gísli Marteinn að hann tekur fullan þátt í þessari vafasömu íþrótt, væntanlega í þeirri von að komast á verðlaunapall. Slíkur leikur má ekki tefja brýnt framfaramál þjóðarinnar sem endurnýjun Landspítala er.