Bætum aðstöðu og spörum í rekstri

26. september 2012

Nýbygging Landspítala er til þess að stórbæta aðstöðu sjúklinga og starfsmanna og ná sparnaði í rekstrarkostnaði með sameiningu starfseminnar, segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítala, í grein í Morgunblaðinu.

Hann bendir á að Landspítali sé á 17 stöðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Byggingar séu við Hringbraut, í Fossvogi, blóðbanki sé við Snorrabraut, skrifstofur á Eiríksgötu, vörumóttaka og dauðhreinsun á Tunguhálsi, rannsóknastofur í sýkla- og veirufræði séu í Ármúla 1a, lífsýnasafn í Skógarhlíð og sjúkrahótel í Ármúla 9. 

„Með nýjum byggingum við Hringbraut sameinast öll þessi starfsemi og leiðir það til mikils hagræðis fyrir sjúklinga og starfsmenn og sparnaðar sem metinn er um 2,6 milljarðar á ári eða um 6-7% af árlegum rekstrarkostnaði Landspítala,“ segir í greininni. 

Auk framangreindra staða sé Landspítali með starfsemi á Landakoti, Kleppi, barna- og unglingageðdeild á Dalbraut, endurhæfing sé á Grensási, líknardeild í Kópavogi, sjúkraskrársafn í Vesturhlíð, Hvítabandið á Skólavörðustíg, þá sé starfsemi á Laugarásvegi og Reynimel. 

Skurðstofur, gjörgæsla og myndgreining í yfir 80 ára gömlu húsnæði
„Húsnæði Landspítala er flest komið til ára sinna, byrjað var að byggja Landspítala við Hringbraut árið 1926, sama ár og Melavöllurinn var vígður, og yngri legudeildarálmurnar á Hringbraut eru um 50 ára gamlar og uppfylla alls ekki kröfur sem nú eru gerðar til sýkingavarna og aðstöðu sjúklinga. Sama má segja um húsnæði Landspítala í Fossvogi.  Skurðstofur, gjörgæsla og myndgreining eru að stærstum hluta í elsta húsnæðinu á Hringbraut sem er nú yfir 80 ára gamalt.“ 

Grein Ingólfs