Barnakynslóðin sprengir utan af sér sjúkrahúsin

24. september 2012

Við megum ekki bíða deginum lengur með að bregðast við fjölgun eldri borgara á Íslandi segir María Heimisdóttir, læknir og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, í viðtali sem birtist í Fréttatímanum á dögunum. Hún segir endurnýjun á húsnæði spítalans vera eina forsendu þess að hægt sé að tryggja örugga og fullnægjandi þjónustu við hinn stóra hóp eldri landsmanna til framtíðar.

Í fréttaskýringu Mikaels Torfasonar  í Fréttatímanum kemur meðal annars fram að um helmingi fleiri Íslendingar verði yfir sextugt árið 2025 en nú. Í dag sé þessi hópur um 55 þúsund manns en muni þá hafa fjölgað um ríflega 50% og verða orðinn um 84 þúsund manns.  Þá muni Íslendingum almennt einnig fjölga á þessu tímabili og því megi gera ráð fyrir að legudögum á Landspítala þurfi að fjölga um 33% ef sinna eigi þessum stóra hópi.

„Endurnýjun á húsnæði spítalans með nýrri byggingu við Hringbraut er ein forsenda þess að við getum tryggt örugga og fullnægjandi þjónustu við þennan stóra hóp eldri landsmanna til framtíðar,“ segir María í viðtalinu. Hún eigi þar ekki eingöngu við háaldraða heldur í raun þann hóp sem kominn er vel yfir miðjan aldur og sé því í meiri hættu að fá ýmsa sjúkdóma. „Breskar rannsóknir sýna að sjúkrahúskostnaður fjórfaldast eftir 65 ára aldur og því verðum við að bregðast strax við þróuninni.“ Auk hærri meðalaldurs og lengri líftíma fólks kalli aukin tíðni langvinnra sjúkdóma einnig á aukin afköst og nýja tækni til að tryggja framboð á þjónustu.

María er læknir og sérfræðingur í lýðheilsufræðum og hefur ásamt sínu samstarfsfólki skoðað sérstaklega þróun í eftirspurn og kostnaði við sjúkrahúsþjónustu en sú þróun er ein forsenda forgangsröðunar og skipulags heilbrigðismála. „Við megum ekki tefjast deginum lengur. Við stöndum frammi fyrir stórum hópi af fólki sem þarf á þjónustu okkar að halda á næstu árum. Þetta er fólkið sem borgaði það sem við höfum í dag. Ef við hefjumst ekki þegar handa við að endurnýja húsnæði LSH þannig að unnt verði að taka í notkun nýja tækni og auka afköst enn frekar þá munum við eiga mjög erfitt með að anna þessari miklu aukningu á eftirspurn,“ segir María í viðtalinu í fréttaskýringu Fréttatímans.