Betri þjónusta og minni rekstrarkostnaður

28. febrúar 2013

Þjónusta á sjúkrahúsum verður æ sérhæfðari og hugmyndin á bakvið eitt öflugt háskólasjúkrahús er að þar sé til staðar besta heilbrigðistækni og heilbrigðisþjónusta sem völ er á, á hverjum tíma. Þetta segir Gunnar Svavarsson, formaður byggingarnefndar og stjórnar Nýs Landspítala, en hann var í viðtali í fréttaskýringaþættinum Speglinum á Rás 2 í vikunni.

Fram kom að áætlað sé að reisa meðferðarkjarna, sjúkrahótel, rannsóknarhús og bílastæðahús á lóð Landspítalans en Gunnar segist vonast til að lokið verði við að reisa fyrsta áfanga spítalans árið 2019. 

Hugmyndin að minnka rekstrarkostnað 
Hann nefnir að hugmyndafræðin á bak við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík við Hringbraut sé að rekstrarkostnaður verði minni en nú er. 
Þá þurfi að hafa í huga að þörfin fyrir þjónustuna sé að aukast, þjóðin sé að eldast og stórir árgangar séu að komast á þann aldur að þeir þurfi meira á sjúkrahúsþjónustu að halda.

Gunnar segir að þeirri gagnrýni á staðarval og stærð húsanna sem komið hafi fram á löngum undirbúningstíma verkefnisins hafi verið svarað. Þá hafi tillaga sem fram hafi komið um aðra útfærslu sjúkrahússins verið skoðuð í sérstakri úttekt. 

Spegillinn á Rás 2