Bílakjallari undir Sóleyjartorgi - aukin þjónusta við sjúklinga og bættar samgöngur með Borgarlínu

23. desember 2021

Framkvæmdir við bílakjallara, sem verður staðsettur undir Sóleyjartorgi austan megin við meðferðarkjarnann, hefjast strax á næsta ári.

Bílakjallarinn verður rúmar 7 þúsund fermetrar að stærð og er hann hugsaður sem aðkoma fyrir þá sem eiga erindi á nýja spítalann, segir Erlendur Árni Hjálmarsson verkefnastjóri hjá NLSH.

Á Sóleyjartorginu verður bein aðkoma að bráðamóttökunni og inn í spítalann. Bílakjallarinn verður á tveimur hæðum og hver hæð um 3500 fermetrar og verða þar um 180 bílastæði.

Þessi bílastæði eru eingöngu hugsuð fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra en starfsmenn Landspítala munu nýta sér bílastæði í Bílastæða – og tæknihúsi sem verður vestan megin á lóðinni.

„Jarðvinnu fyrir bílakjallarann er lokið en framkvæmdir hefjast á vormánuðum 2022 og áætlað er að þeim ljúki á árinu 2023“, segir Erlendur.

Hönnun bílakjallarans er langt komin og þessa daga er verið að hanna tæknihluta s.s. burðarþol og lagnir en hönnunaraðili bílakjallarans er Verkís verkfræðistofa.

Við Sóleyjartorgið verður aðkoma Borgarlínunnar sem verður mikil samgöngubót fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu á nýjan spítala.