Breytingar á bílastæðum við Landspítala Hringbraut

8. desember 2015

Vegna byggingar nýs sjúkrahótels, sem er að hefjast á Landspítala Hringbraut, verða breytingar á bílastæðum og innkeyrslu þar í desember 2015. Breytingarnar eru hafnar og verður haldið áfram í áföngum fram undir jól. Áhrif á umferð akandi og gangandi að og frá spítalanum Barónsstígsmegin verða veruleg vel fram á árið 2016.

  • Gjaldskyldum bílastæðum við K-byggingu hefur verið lokað. Bílastæðum milli kvennadeildar og K-byggingar verður einnig lokað. Í staðinn eru komin í notkun ný bráðabirgðabílastæði fyrir framan aðalbygginguna (um 70 stæðum lokað og bráðabirgðabílastæðin eru álíka mörg). Þau nýju bílastæðanna sem eru nær aðalinngangi spítalans (Kringlunni) og allt svæðið við kvennadeildir og barnaspítala verða gjaldskyld.
  • Fyrir jól verður innkeyrslunni að Landspítala Hringbraut frá Barónsstíg lokað alveg vegna jarðvegsframkvæmda. Ný innkeyrsla verður opnuð á árinu 2016 lítið eitt ofar við Barónsstíg.
  • Til tímabundinnar lokunar gæti komið á aðalinngangi að K-byggingu þar sem er meðal annars geislameðferð. Aðalinngangur spítalans (Kringlan) eða inngangurinn frá Eiríksgötu yrðu þá jafnframt aðalinngangar K-byggingar þar til framkvæmdum lýkur við nýja innkeyrslu frá Barónsstíg.
  • Aðalinnkeyrsla að Landspítala Hringbraut verður frá gömlu Hringbraut og Eiríksgötu meðan á lóðarframkvæmdum vegna byggingar sjúkrahótels stendur.

pdfKort af svæðinu