Búið að klæða þriðjung meðferðarkjarna
Vinna við meðferðarkjarna gengur áfram vel og góð framvinda í verkinu.
„Þessa mánuðina sjáum við meiri framvindu í byggingu meðferðakjarnans en við höfum áður séð. Unnið er í fjölmörgum verkþáttum og fer þar mest fyrir uppsetningu útveggjaeininga. Búið er að loka útveggjum u.þ.b. 30% byggingarinnar og er vel farið að sjást hvernig samspil glers og steins kemur út í útliti hússins. Gert er ráð fyrir að meira en 50% af útveggjum verði komnir á bygginguna í lok sumars. Auk þess er vinna við þakfrágang að hefjast og samhliða því vinna við niðurfallslagnir frá þaki. Búist er við að þakfrágangi á tveimur stöngum af fimm verði lokið í sumarlok og þar með verður hægt að hefja vinnu við frágang innanhúss á efri hæðum hússins strax í haust.
Vinna við ílagnir og rykbindingu í kjöllurum byggingarinnar verður í fullum gangi í sumar sem gerir okkur kleift að hefjast handa við gróflagna vinnu í kjöllurum í haust,“ segir Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri framkvæmda NLSH.