Býður gistingu á ganginum

17. desember 2012

Sviðið er sjúkradeild á Landspítala í morgunsárið. Veikt fólk liggur á öllum stofum deildarinnar, en einnig eru þrjú rúm á ganginum. Í þeim er líka fólk, veikt fólk" segir Sigurður Guðmundsson læknir í grein í Morgunblaðinu í dag. Mbl.is birtir einnig frétt um málið.

Og Sigurður heldur áfram: „Maður er í fremsta rúminu, veikindalegur, grár og gugginn. Hann er að borða morgunmatinn, er að drepa smjöri á brauðsneið í skjannabirtu neonljósa gangsins. Hjúkrunarfræðingarnir eru á þönum að sinna sjúklingum, það er ys og þys, reyndar hávaði eins og stundum er í svipaðri mannmergð í flugstöðinni í Keflavík. Hann brosir til læknanna þegar þeir troða sér fram hjá rúminu til að komast inn á ganginn, en hvorki kvartar né skammar þá fyrir þennan aðbúnað sem honum er búinn, geðprýðismaður.“


Segir ástandið þjóðarósóma
Þetta er ekki óvenjulegur morgunn í lífi á sjúkradeild á stærstu heilbrigðisstofnun þjóðarinnar þessi misserin, segir læknirinn. Morgnarnir eru ekki allir svona, en alltof margir. Getum við boðið veiku fólki upp á þessi býti? Hvað er að hjá okkur ef við látum þetta viðgangast og yfir okkur ganga? Þetta er þjóðarósómi. 

Lokaorð Sigurðar eru þessi: „Kannski þurfa þeir sem með fjárlagagerð sýsla, þingmennirnir okkar, að reyna það á eigin skinni hvernig er að eiga nótt á sjúkragangi. Hvernig er að vakna við glærubirtuna, öll hljóðin af ganginum, láta hlusta sig í margmenni og ræða fyrir allra eyrum um erfið mál? Kannski ætti Landspítalinn að bjóða þeim gistingu eina nótt í sjúkrarúmi á gangi, staðgóður morgunverður fylgir.“ 

Frétt mbl.is um greinina.