• New national hospital

Endurnýjun Landspítala brýnt þjóðþrifamál

26. júní 2012

Þriðji hver Íslendingur, hvaðanæva af að landinu fær árlega þjónustu á Landspítala. Því er endurnýjun spítalans, sem nú stendur fyrir dyrum, mál allra landsmanna. Hagur sjúklinga er hafður í fyrirrúmi við þá uppbyggingu sem framundan er. Nýr spítali mun tryggja að Landspítali standi undir nafni sem þjóðarspítali sem tryggir að íslensk sjúkrahúsþjónusta standi jafnfætis þjónustu í löndum sem við berum okkur saman við. Með samhliða uppbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands skapast vel boðlegt kennslu- og rannsóknarumhverfi háskólaspítala.

Mikill akkur er í því að endurnýja spítalann. Endurnýjunin mun í senn auka öryggi sjúklinga, bæta meðferðarmöguleika og aðstæður og skapa hagkvæmara rekstrarumhverfi.  Áætlanir gera ráð fyrir að lokið verði við fyrsta áfanga í ársbyrjun 2018.

Forsagan 
Verkefnið á sér orðið nokkuð langan aðdraganda og hefur undirbúningur staðið í meira en áratug. Sögu verkefnisins má rekja til sameiningar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala í mars 2000. Þá varð ljóst að ekki yrði vikist undan því að hefjast handa við að bæta húsakostinn ef markmið sameiningarinnar um eflingu faglegrar þjónustu og aukið hagræði ætti að ná fram að ganga. 

Eftir ítarlega yfirferð ákváðu stjórnvöld árið 2002 að hagkvæmast væri að framtíðaruppbygging Landspítala yrði við Hringbraut.  Á næstu árum var unnin ýmis vinna til undirbúnings verkefninu.  Í októberlok 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd til að annast skipulagningu húsnæðis fyrir spítalann á Hringbrautarsvæðinu. Árið 2004 var skýrsla nefndarinnar um heildarkostnað framkvæmdanna og áfangaskiptingu þeirra til 14 ára kynnt, ásamt tillögu að alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar. Í ársbyrjun 2005 gáfu stjórnvöld grænt ljós á samkeppnina, forval var auglýst og sóttu 18 fjölþjóðlegir hópar sérfræðinga um þátttöku. Sjö stigahæstu kepptu um skipulagið.

Niðurstaða samkeppninnar lá fyrir í október 2005. Teymi undir forystu arkitektanna C.F.Møller varð hlutskarpast og var í kjölfarið gerður samningur við vinningshafa um áframhaldandi vinnu við verkefnið. M.a var framkvæmd þarfagreining þar sem gerð var grein fyrir áætlaðri starfsemi árið 2025. Frumhönnun verkefnisins var lokið.

Í kjölfar þess að haustið 2008 sköpuðust nýjar og áður óþekktar aðstæður í þjóðfélaginu þótti ástæða til að endurskoða niðurstöðu frumathugunar og endurmeta forsendur verkefnisins. Sérfræðingar norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitektar AS og Hospitalitet AS voru fengnir til verksins og skiluðu þeir niðurstöðu sinni í apríl 2009.

Meginniðurstaða þeirra var sú að þegar til lengri tíma litið væri hagkvæmast að ráðast í framkvæmdir. Mun dýrara væri að „gera ekkert“, m.a. vegna óhagkvæmni í rekstri vegna þess hversu dreifð starfsemi spítalans er og vegna viðhalds á gömlu og lélegu húsnæði 
Í niðurstöðu endurskoðunarinnar kom jafnframt fram að hagkvæmast væri að flytja starfsemina úr Fossvogi á Hringbraut og stækka spítalann á lóð Landspítala við Hringbraut þar sem hægt væri að koma fyrir allri bráðaþjónustu spítalans.

Í framhaldi af niðurstöðu norsku ráðgjafanna var spítalaverkefninu komið aftur á rekspöl.  Í nóvember 2009 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing meginþorra lífeyrissjóða landsins og ríkisstjórnarinnar um samstarf við undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingar Landspítala. Í framhaldinu skipaði heilbrigðisráðherra verkefnisstjórn til að vinna að framgangi málsins. Fólst vinna hennar m.a. í undirbúningi hönnunarsamkeppni og hönnunarútboðs vegna spítalaverkefnisins og stofnun undirbúningsfélagsins Nýr Landspítali ohf. (NLSH). Félaginu  var falið það verkefni með lögum að standa að nauðsynlegum undirbúningi, láta bjóða út byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og semja um að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu að loknu útboði. Samið var við vinningshafa samkeppninnar, SPITAL ráðgjafateymið,  um gerð deiliskipulags, forhönnun og gerð alútboðsgagna fyrir framkvæmdina. 

Umfangsmikil hönnunarvinna hefur staðið yfir undanfarin misseri.  Unnið er í nánu samstarfi við 16 notendahópa Landspítala og Háskólans þar sem á annað hundrað starfsmenn taka þátt.  Drög að deiliskipulagi vegna framkvæmdanna lágu fyrir síðastliðið haust og eru þau nú til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum.  Vonir standa til að deiliskipulagið öðlist gildi í haust. 


Þörfin mikil
Enginn vafi leikur á því að mikil þörf er fyrir endurnýjun spítalans, m.a vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Sextugir og eldri þurfa langmest á þjónustu sjúkrahúsa að halda og núna eru stórir árgangar eftirstríðsáranna komnir á sjötugsaldur.  Árið 2025 hefur hlutdeild sjötugra og eldri á landinu aukist um 40 prósent.  Landspítalinn getur ekki að óbreyttu tekið við þeirri fjölgun án nýbyggingar spítalans þar sem nútíma tækni verður við komið. Því er ekki forsvaranlegt að bíða og gera ekkert. 

Umbætur  í þágu sjúklinga
Meðal þess sem helst er horft til þegar rætt er um þörfina á endurnýjun spítalans er þörfin á betri aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra, sem eykur öryggi sjúklinga og flýtir bata.  Sérbýli fyrir alla sjúklinga eru þar lykilatriði.

Flestir sjúklingar á Landspítala deila sjúkrastofum með allt að fimm öðrum einstaklingum. Það fyrirkomulag er mjög óhentugt, ekki síst hvað varðar varnir gegn spítalasýkingum sem hvarvetna eru alvarlegt vandamál. Rannsóknir hafa sýnt að sérbýli fyrir sjúklinga fækka slíkum sýkingum um tugi prósenta.  Þá ber að nefna að sérbýli stuðla að því að virðing fyrir friðhelgi einkalífs sjúklinganna sé virt. Ekki þarf að efast um að hversu óþægilegt getur verið að ræða við starfsfólk um viðkvæm einkamál á fjölbýlum innan um aðra sjúklinga sem viðkomandi þekkir engin deili á.  Þá getur orðið ónæðissamt á fjölbýlum og hvíld sjúklinga minni en æskilegt er.

Á legudeildum í nýju húsnæði er gert ráð fyrir að allir sjúklingar dveljist á sérbýlum með salerni. Við það eykst öryggi þeirra, flutningur sjúklinga minnkar, þeir hvílast betur og aukið næði gefst til að ræða meðferð og líðan.

Fleiri umbætur eru í augsýn, svo sem sjúkrahótel á lóð spítalans. Á hótelinu verða 77 herbergi en það mun ekki síst nýtast fólki sem þarf vegna heilsu sinnar eða aðstandenda að dvelja fjarri heimabyggð.  Á hótelinu verður hlýleg og heimilisleg aðstaða og innangengt í þjónustu sjúkrahússins. Sjúkrahótel hafa risið við spítala víða í nágrannalöndunum. Tilkoma slíkra hótela hefur bætt þjónustu við sjúklinga og fækkað legudögum.

Með uppbyggingu við Hringbraut verður bráðastarfsemi spítalans loks sameinuð á einum stað. Í dag er þessi starfsemi rekin á Hringbraut og í Fossvogi, sem eru tvær stærstu starfsstöðvar Landspítala. 

En ýmislegt fleira kallar á endurnýjun spítalans. Nefna má að spítalinn er afar dreifður en hann starfar á 17 stöðum víða um höfuðborgarsvæðið. Mikið af húsnæði spítalans er gamalt og úr sér gengið og fullnægir ekki kröfum tímans. Þá hlýst mikið óhagræði af flutningum sjúklinga milli stærstu starfsstöðva spítalans í Fossvogi og við Hringbraut. Eru þeir flutningar ekki án áhættu fyrir suma sjúklingana auk þess almenna óhagræðis sem þeim fylgja.

Öfundsverð af nálægð við rannsóknar- og vísindastarf
Í 1. áfanga er gert ráð fyrir að byggja upp Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands á spítalalóðinni.  Nálægð spítalans við Háskóla Íslands var ein af forsendum þess að staðsetningin við Hringbraut var valin fyrir uppbyggingu nýs Landspítala. Með tengingu húsa er hægt að samnýta enn frekar tæki og tækni og þar verður jafnframt til sameinaður vettvangur fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem stundar vísindarannsóknir og þekkingarsköpun. Þekkt er að í slíku umhverfi spretta gjarnan nýjar hugmyndir og fagleg tengsl aukast. Ísland er talið öfundsvert af því að eiga þess kost að byggja upp háskólaspítala samtvinnað rannsóknar- og vísindastarfi.

Hringbraut hentar best
Eftir sameiningu stóru sjúkrahúsanna árið 2000 var fljótlega farið að huga að því hver væri heppilegasta staðsetning nýs sameinaðs Landspítala. Starfsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skoðaði árið 2002 kosti þess og galla að sameina spítalann við Hringbraut, í Fossvogi eða á Vífilsstöðum. Álit nefndarinnar var að Hringbraut væri ótvírætt besti kosturinn. Meginrökin voru m.a. þau að þar yrði kostnaður minnstur, m.a. vegna bygginga á lóð spítalans sem áfram væri hægt að nýta til starfseminnar. Aðgengi yrði gott og nálægð við Háskóla Íslands skipti miklu fyrir samvinnu stofnananna. Í Fossvogi voru fullnægjandi tengingar við stofnbrautir taldar útilokaðar og á Vífilstöðum hefði þurft að byggja mun meira en á hinum stöðunum áður en starfsemi gæti hafist auk þess sem báðir þessir staðir væru slitnir frá háskólasvæðinu.

Árið 2008 fór nefnd á vegum heilbrigðisráðherra aftur yfir staðarvalið og beindi sjónum einkum að umferðarmálum. Sömu staðsetningarkostir voru skoðaðir og árið 2002 en að auki voru kannaðir möguleikar á staðsetningu í landi Keldna.  M.a voru rannsakaðar skipulagslegar forsendur fyrir staðsetningu, spár um umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi og aðgengismál. Niðurstaðan var sú að ekki væri sýnilegur neinn ávinningur hvað varðar umferðarmagn á höfuðborgarsvæðinu að flytja spítalann frá Hringbraut. Hins vegar byði Hringbrautarsvæðið upp á aðkomu úr mun fleiri áttum en aðrir kostir.

Hvað varðar almenningssamgöngur var niðurstaða nefndarinnar sú að staðsetning við Hringbraut væri áberandi besti kosturinn. 
Ennfremur var í úttekt norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitektar AS og Hospitalitet AS, sem gerð var eftir efnahagshrun tekið fram að gert væri ráð fyrir að hagkvæmast væri að byggja nýbyggingar á lóð Landspítala við Hringbraut. Þannig mætti nýta þann húsakost sem fyrir er með sem hagkvæmustum hætti.

Nýjustu rannsóknir, m.a ítarlegar ferðavenjukannanir meðal starfsfólks Landspítala, og mælingar á umferð fela sömuleiðis í sér jákvæða umferðarspá fyrir nýbyggingar við Hringbraut. Niðurstöður þeirra eru að umferð á götum í nálægð spítalans aukist ekki verulega við sameiningu starfseininga þar.

Ennfremur má nefna að eining ríkir hjá borgarfulltrúum í Reykjavík um staðsetningu Landspítala til framtíðar við Hringbraut.

Rúmgóðar þræðingarstofur
Mikil bót verður fyrir fólk með hverskonar sjúkdóma eða meiðsl að öll bráðamóttaka verði á einum stað í nýjum meðferðarkjarna spítalans. Gildir þetta ekki síst fyrir sjúklinga með bráða hjartasjúkdóma. Ekki mun lengur leika vafi á hvar tekið verður á móti sjúklingi með verk fyrir brjósti, í hálsi, í öxl eða ofanverðum kvið sem allt getur stafað frá hjarta. Rúmgóðar þræðingarstofur verða á sömu hæð og skurðstofur, sem eykur verulega öryggi sjúklinga sem fara í hjartaþræðingu á spítalanum. Sömuleiðis verður mjög greiður aðgangur frá bráðamóttöku beint að þræðingarstofum og hjartadeild með rúmgóðum og vel útbúnum sjúklingalyftum. Hjartasjúklingar munu njóta þess jafnt og aðrir sjúklingar að hönnun tekur mið af hugmyndafræði Planetree samtakanna þar sem lögð er áhersla á vistlegt og notalegt umhverfi og persónulega þjónustu svo og aukinn hraða og öryggi sem fylgir bættum rafrænum samskiptum, flutningi sýna, lyfja o. fl. með rörpósti og sjálfvirkri afgreiðslu lyfja frá apóteki sjúkrahússins á hvern einstakan sjúkling samkvæmt rafrænni auðkennismerkingu (strikamerking). Hönnun legudeilda gerir ráð fyrir meiri nánd starfsmanna við sjúklingana með uppbyggingu þeirra í svokölluðum þyrpingum þar sem ein vaktstöð er fyrir hver átta sjúkraherbergi. Vöktun verður þannig enn nánari en við núverandi aðstæður.

Að lokum má benda á að allir þegnar landsins, sjúkir og frískir, njóta þess að það fé sem varið er til heilbrigðismála verður umtalsvert betur nýtt eftir að nútímalegt sjúkrahús hefur verið reist. Slíkt sjúkrahús dregur að vel menntaða heilbrigðisstarfsmenn, landa okkar, sem nú veigra sér við að snúa heim  eftir framhaldsnám erlendis meðal annars vegna hrörlegs og úrelts húsakosts og tækjabúnaðar. Úrbætur eru dýrar en dráttur á úrbótum er enn dýrari.