• New national hospital

Enn um húsnæðismál LSH

22. júní 2006

Með stuttu millibili hafa birst tvær greinar í Morgunblaðinu sem fjalla um þá aðstöðu sem sjúklingum og starfsfólki er búin á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH). Önnur ber yfirskriftina Viltu vinna á LSH og er eftir Kristján Guðmundsson lækni og hin er Orðskrípið hátæknisjúkrahús sem Hjalti Már Bjarnason læknir skrifar. Í báðum tilfellum er um að ræða orð sem eru í tíma töluð. Mig langar aðeins að halda áfram á sömu braut.

Ég er líffræðingur og vinn við eina af deildum LSH sem heyra undir rannsóknasvið spítalans, nánar til tekið við Blóðbankann. Af eðlilegum ástæðum er ég því ekki í beinum daglegum tengslum við sjúklinga. Engum dettur þó í hug að efast um mikilvægi þessara stofnana fyrir starfsemi spítalans. Það sem mig langar að upplýsa þig um, lesandi góður, er hvernig búið er að þessari starfsemi. Aðstaðan er engu betri en á legudeildunum.

Blóðbankinn var settur á stofn 1953 og nú, 53 árum síðar, er hann enn í sama húsnæði. Að vísu var gerð örlítil viðbygging vestan við húsið 1978 sem gerði það að verkum að hægt er að ganga innanhúss á milli hæða. Þegar bankinn varð 20 ára 1973 var viðtal í einu dagblaðanna við þáverandi yfirlækni, Ólaf Jensson, þar sem hann segir að hjá sér vinni 16 manns í þröngu og óhentugu húsnæði. Nú eru starfsmenn tæplega 50 sem segir manni að starfsemin hefur margfaldast. Húsnæðið er hins vegar nær óbreytt. Plássið sem mér er ætlað fyrir pappírsvinnuna sem tengd er mínu starfi í bankanum er minna heldur en ég hafði þegar ég var í foreldrahúsum á árunum kringum 1960 og var það ekki beysið miðað við það sem margir af mínum félögum höfðu.

Rannsóknastofa í ónæmisfræði er jafnvel enn verr sett því hún er í gamla þvottahúsi LSH sem guð má vita hvenær var byggt. Að vísu var þakið hækkað örlítið á árunum upp úr 1980 og nú er stór hluti starfseminnar er undir súð. Rannsóknastofa í sýklafræði er síðan í tveimur bröggum sem voru byggðir til bráðabirgða 1975. Ég ætla ekki að hafa þessa upptalningu lengri.

Nú kann einhver að segja að bygging nýs spítala sé í undirbúningi og því full ástæða til að ætla að ástandið muni lagast innan tíðar en af fyrri reynslu má ætla að líklega séu ár og dagar þar til sú bygging rís. Hér er um að ræða vanda sem verður að leysa strax. Í Morgunblaðinu var fyrir skemmstu grein sem bar yfirskriftina 300 byggingarkranar á lofti á Reykjavíkursvæðinu. Það má ljóst vera að talsverðu fé er varið þessi misserin til nýbygginga, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis.

Á grundvelli orða minna hvet ég ráðherra þessara mála til að leysa vandann sem allra fyrst. Hugmyndir að lausninni eru ykkur kunnar. Það er ykkar skylda fyrir hönd skjólstæðinga ykkar, sem er fólkið í landinu, að stíga skrefið til fulls.