• New national hospital

Eru heilbrigðismálin aukaatriði í aðdraganda kosninga?

2. mars 2007

Margir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar tóku eftir því að ekki var minnst á heilbrigðismál svo neinu næmi í áramótagreinum forystumanna stjórnmálaflokkanna. Ekki hefur heldur farið mikið fyrir umræðum um málaflokkinn síðan, nema þá helst til að hvetja til frestunar á uppbyggingu hins nýja háskólasjúkrahúss og til meiri einkareksturs í heilbrigðisgeiranum, a.m.k. af hálfu fáeinna stjórnmálamanna. Allir vilja að auki vera góðir við aldraða. 

Þær þúsundir kjósenda sem vinna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við sumpart úreltar eða ófullnægjandi húsnæðisaðstæður, manneklu, gangainnlagnir og stöðugar fregnir af fjárskorti til að reka þá þjónustu sem þar þarf að veita, munu láta sig nokkru varða hvað stjórnmálamennirnir hafa að segja um þessi mál á vormisseri. Hver af stjórnmálaflokkunum ætlar að heita því styðja með öflugum hætti við uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss næstu 10 árin og veita til þess, þó ekki væri nema ¼ af því sem fara á í umbætur á vegakerfi landsmanna? Fé til framkvæmda við að hanna þetta kjarnastykki í heilbrigðisþjónustu landsmanna kemur hægt og er ekki tekið beint úr ríkiskassanum, heldur er um að ræða 1/3 af því sem fékkst fyrir sölu Símans. Það mun tæplega duga fyrir fyrsta þætti verksins. Óljóst er hvaðan viðbótarfjármunir eiga að koma og áætlanir frá stjórnmálamönnunum vantar. Vita þeir hvar mest kreppir að og hversu brýnt er að framkvæmdir dragist ekki? 

Flestir þingmenn eru svo heilsugóðir að þeir þurfa sem betur fer ekki oft að nota þjónustu spítalans. Langt er síðan þingmaður hefur setið í stjórnarnefnd spítalans og þeir sjást sjaldan í heimsókn hér til að kynna sér þau vandamál sem starfsfólkið glímir við. Kannski er það ein af ástæðum þess að oft má merkja af málflutningi sumra þeirra að þekkingu skortir á heilbrigðismálum. Þetta kemur m.a. fram í síbylju um "hátæknisjúkrahús", þó öllum ætti að vera ljóst að "há-tækni" er ekki notuð nema í hluta af þeim læknisaðgerðum og hjúkrunarmeðferðum sem veittar eru á Landspítalanum. Tæknin á hins vegar að vera til staðar þegar hennar er þörf. Stjórnmálamennirnir mundu eflaust sjálfir óska eftir bestu fáanlegri tækni ef þeir þyrftu á rannsóknum eða meðferð að halda á Landspítalanum.

Stjórnmálamenn virðast líka stundum gleyma þeim árangri sem náðst hefur með sameiningu spítalanna í Reykjavík, svo sem til að stytta biðlista, lækka kostnað og bæta meðferðarmöguleika. Þar er búið að ganga eins langt og unnt er á flestum sviðum meðan spítalinn er enn í tveimur megin starfsstöðum, við Hringbraut og í Fossvogi. 

Ýmislegt gæti hafa gengið betur undanfarin misseri í sameiningu og stjórnsýslu á spítalanum. Þau vandamál eru þó ekki óleysanleg. Margt sem þar hefur áhrif er reyndar komið frá stjórnvöldum með nýjum og stundum ófullnægjandi laga- og reglugerðarákvæðum eða gegnum kjara- og milliríkjasamninga, en nauðsynlegir fjármunir til framkvæmda hafa oft ekki fylgt. Þetta hefur víðtæk áhrif í starfi og stjórnsýslu, en auðveldar ekki endilega lausn ágreiningsmála. Aðrir gagnrýna að "skrifræði" aukist, en horfa framhjá því að framfarir á borð við rafrænar sjúkraskrár, gæða- og öryggiskerfi og faglegt eftirlit verða ekki unnin í hjáverkum, hvorki í opinberri þjónustu né í einkageiranum. Hér á landi er eftirlit með einkarekinni heilbrigðisstarfsemi ekki eins og vera þyrfti, en umbætur á því yrðu seint skrifaðar á reikning einkageirans sjálfs heldur héti það "að þenja út ríkisbáknið". 

Vonandi munu stjórnmálamenn beina sjónum víðar en að umhverfinu, evrunni, öldruðum, svifryki, samgöngum og stóriðju. Heilbrigðismál þjóðarinnar, öflugur stuðningur við nýbyggingu háskólasjúkrahússins og vönduð heilbrigðislöggjöf sem víðtæk sátt er um, þurfa líka að vera í brennidepli á kosningatíma og fram yfir það. Til þess er nauðsynlegt að stjórnmálamenn hafi góða þekkingu á heilbrigðismálunum og hlusti á rök og ábendingar starfsfólksins sem þar vinnur. Þeir eru hvattir til að fara ekki tómhentir á atkvæðaveiðar og til að draga úr hugmyndafræðilegum hægri eða vinstri klisjum, sem í nútíma samfélagi með fjölþætt þjónustuform eiga að tilheyra fortíðinni. Landspítali – háskólasjúkrahús er stærsta og gagnlegasta verkefnið í heilbrigðisþjónustunni næsta áratuginn og markviss uppbygging þar skilar öllum landsmönnum margföldum arði.