Fagleg nálgun við hönnun þyrlupalls á rannsóknarhúsi nýs Landspítala

17. mars 2016

Endurrýni forhönnunar á nýju rannsóknarhúsi á lóð Landspítalans við Hringbraut stendur nú yfir.


Stefnt er að útboði á fullnaðarhönnun hússins á haustmánuðum. Landspítalinn hefur undanfarna daga staðið fyrir 3P LEAN vinnustofu vegna samræmingar á vinnuferlum á milli rannsóknarsviða.


Á vinnustofuna kom á vegum NLSH ráðgjafi Spital-hópsins sem unnið hefur að forhönnun allra bygginga við Hringbraut og gerð allra skipulagsáætlana sem nú hafa verið samþykktar.


Böðvar Tómasson, fagstjóri bruna og öryggissviðs Eflu verkfræðistofu, hélt fyrirlestur um ýmis atriði sem snúa að byggingu þyrlupalls sem verður hluti af rannsóknarhúsinu.


Margir aðilar koma að þessu samstarfi og á fundinum voru m.a. Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar og Sindri Steingrímsson flugrekstrarstjóri sem svöruðu fyrirspurnum ásamt Böðvari.


Þess má geta að Landhelgisgæslan nýtur mests trausts í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup en 92% landsmanna bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Er það mesta traust sem mælst hefur til nokkurrar stofnunar í mælingum Gallup. Þetta er sjötta árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana.