Félag atvinnurekenda fundar um málefni nýs Landspítala

20. janúar 2016

Félag atvinnurekenda hélt í dag morgunverðarfund sem bar yfirskriftina „Hvað þarf að gerast til að nýr Landspítali rísi“.

Dagskrá fundarins var:

  • Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra: Höldum áfram á markaðri leið
  • María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans: Uppbygging þjóðarsjúkrahúss
  • Jón Finnbogason, forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni: Fjármögnun hátæknisjúkrahúss – sterk staða ríkissjóðs eykur svigrúm

„Höldum áfram á markaðri braut“ var yfirskrift erindis sem heilbrigðisráðherra flutti á fundi Félags atvinnurekenda. Ráðherra fór þar yfir stöðu framkvæmda og næstu skref. Hann sagði ákvörðun um uppbygginguna byggjast á skýrum vilja og sterkum rökum.

Í erindi sínu lagði ráðherra áherslu á að skyldur hans sem heilbrigðisráðherra væru fyrst og fremst við sjúklinga og snérust um að tryggja þeim aðgang að þeirri flóknu og sérhæfðu þjónustu sem þeir þurfi jafnan með sem koma á Landspítalann og að sú þjónusta standist eðlilegar kröfur um öryggi og gæði og einnig aðbúnað:

„Það sem blasir við og fólk verður að átta sig á er að til þess að standa undir þessum kröfum þarf margt að haldast í hendur og uppbygging Þjóðarsjúkrahússins er þar algjörlega nauðsynleg.“

Kristján Þór sagði að nú væri þetta stóra verkefni komið á framkvæmdastig og áfram yrði haldið á þeirri braut sem hefði verið mörkuð, „að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“


Ráðherra rakti feril undirbúnings vegna uppbyggingar Landspítalans undanfarin sex ár, allt þar til fyrsta skóflustunga að sjúkrahóteli á Landspítalalóðinni við Hringbraut var tekin í nóvember síðastliðnum:

„Margítrekuð skoðun málsins, umfjöllun fagaðila, endurmat á faglegum niðurstöðum – og umfjöllun Alþingis hefur alltaf leitt okkur að sömu niðurstöðu sem felur í sér uppbyggingu við Hringbraut.“

Og nú eru framkvæmdir hafnar, sagði ráðherra og bætti við að nú færi að hefjast rýnivinna á forhönnun rannsóknarhússins og undirbúningur að útboði fullnaðarhönnunar þess.

Auk þess mætti benda á að Háskóli Íslands myndi á þessu ári rýna forhönnun vegna byggingar húss fyrir heilbrigðisvísindasvið skólans þar sem allar deildir þess munu sameinast undir einu þaki.


Í júní 2015 samþykkti Alþingi ályktun um stefnumörkun í ríkisfjármálum 2016 – 2019. Ráðherra sagði stuttlega frá áætluninni en í henni felst m.a. að 5,1 milljarður króna verði lagður í uppbyggingu Landspítala á tímabilinu þar sem lokið verði við byggingu sjúkrahótels og hönnun meðferðarkjarna sem boðinn verði út í framhaldinu..

Jón Finnbogason frá Stefni sagði að fjármögnun spítalans yrði ekki vandamál og að staða ríkissjóðs væri að styrkjast.

Á vef mbl.is er ítarleg umfjöllun um framsögu Jóns.