• New national hospital

Forgangsröðum til framtíðar

31. október 2011

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Ekki vegna þess að hér hrundi heilt bankakerfi, heldur vegna þess að undir handleiðslu „norrænnar velferðarstjórnar" hefur mannúð lotið í lægra haldi fyrir pólitískum gæluverkefnum. Þarfir borgaranna víkja fyrir þörfum steingeldrar hugmyndafræði alræðisvaldsins. Ungir sem aldnir fá nú að finna hvernig það er að búa í einræðisríkjum.

Kyrrstaða ríkir, fyrirtæki fara í gjaldþrot, heimilum blæðir og ekki þykir lengur borga sig að veita sjúkum gamalmennum líknarþjónustu sem siðaðir menn telja sjálfsagða. Velferð pólitískra gæðinga hefur þó verið tryggð. Fjölgun í þeim flokki er í öfugu hlutfalli við legurúmin sem tekin eru af líknardeildunum en aftökulistar huglausra ráðherra eru nú bornir fram af embættismönnum sem att er á foraðið. Þá sjaldan að ráðherrar eru hraktir upp að vegg af fjölmiðlamönnum vísa þeir einatt til þess að þeir vinni samkvæmt „ákvörðun" Alþingis. Foringjahollum fjölmiðlungum gleymist þá gjarnan að rifja það upp að meirihlutastjórn situr að völdum á íslandi. Þegar þessi annars aðgerðarlausa ríkisstjórn þarf að sýna vilja til aðgerða gegn atvinnuleysinu sem alla er að sliga, er rykið dustað af einni lengstu meðgöngu lýðveldistímans; 40 ára áætluninni um löngu tímabæra endurnýjun Landspítalans. Það hlýtur að hafa verið nokkurt áfall fyrir ríkisstjórnina að formaður skipulagsráðs Reykjavíkur lýsir sig nú jákvæðan gagnvart staðsetningu spítalans í Vatnsmýrinni og hefur þannig tekið stöðu gegn þvælufótasveitinni sem stendur vörð um kyrrstöðu verkefnisins. Þar hefur verið haldið fram að stofnbrautir beri ekki þunga umferðar umhverfis spítalann. Þessar sömu stofnbrautir trufluðu ekki svefn afturhaldsseggjanna árið 2007, þegar fleiri þúsund manna byggð var skipulögð í Vatnsmýrinni.

Á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001-2024 er gert ráð fyrir framtíðaruppbyggingu Landspítalans þarna auk þess sem frátekin eru svæði þar fyrir sunnan og vestan undir fjármála-, hátækni- og þróunarstarfsemi. Árið 2007 stóð flutningur heils flugvallar heldur ekki í mönnum en nú eins og þá eru sömu rök notuð: þetta getur verið „einhvers staðar annars staðar". Spítalinn á að vera í Fossvogi, á Vífilsstöðum eða Keldum. Hólmsheiði hef ég ekki heyrt nefnda og reyndar ekki Grímsstaði á Fjöllum heldur, en harðsnúin sveit þvælufóta er eflaust ekki búin að segja sitt síðasta orð.
Lengst er þó seilst þegar smágerð byggð Þingholtanna er dregin fram og til baka um svæðið. Verður þess varla langt að bíða að „færustu" sérfræðingar á sviði húsafriðunar flytji mörk þessarar fyrrum tómthúsabyggðar við sunnanvert Bankastræti inn að Elliðaám. Svo virðist sem húsafriðun og fasteignasölur hafi tekið hér höndum saman í blekkingarleik sínum. Skiljanlegt frá sjónarhóli sölumanna á umboðslaunum, en fræðimönnum á sviðinu væri nær að kynna sér bók Páls Líndals: Reykjavík. Sögustaðir við Sund áður en þeir tapa sér og trúverðugleikanum í þessum hreppaflutningum með Þingholtin. Allt þetta þras og rifrildi um staðsetningu og stærð sýnir að það er ekki bara ríkisstjórnin sem forgangsraðar rangt. Hersveitir húsafriðara hafa stillt sínum gæluverkefnum framar í röðinni en lífsnauðsynlegri þróun húsnæðismála Landspítalans.
 
Það eru ekki innantóm orð þegar því er haldið fram að sparnaður sem hlýst af sameinaðri starfsemi spítalans fari langleiðina að standa undir kostnaði við framkvæmdirnar. Í dag er spítalinn starfræktur vítt og breitt um borgina, sem í flestum tilvikum kallar á kaup dýrra tækja sem að öðrum kosti mætti samnýta. Viðhaldi bygginga hefur ítrekað verið slegið á frest vegna loforða um að byggingarframkvæmdir séu um það bil að hefjast. Ástand sumra þessara bygginga er slíkt að þeirra bíður aðeins niðurrif. Á því sviði sem ég starfa á innan heilbrigðisgeirans hefur starfsaðstaðan oft verið bágborin og stundum óboðleg. Ferillinn hófst á einum og hálfum fermetra bak við hurð í bráðabirgðahúsi sem til stendur að rífa. Prófessorinn í greininni fékk aðstöðu í baðherbergi Níelsar Dungal og þótti nokkuð gott. Starfsemin flutti síðan í ósamþykkt ris Gamla þvottahússins. Um tíma starfaði ég í aðalbyggingu Háskóla íslands, þar rigndi inn um gluggana í vestanátt. I Ármúlanum er rekin rannsóknastofa í veirufræði. Sú starfsemi fer fram í aflóga vöruhúsi. Þar rignir ekki bara inn um lokaða glugga heldur líka veggi og loft. Starfsaðstaða mín nú er með borðfót milli fóta og ýlfrandi loftræstingu yfir höfði. Af þessari stuttu yfirferð, sem þó spannar 32ja ára feril hjá hinu opinbera, ætti flestum að vera ljóst að rannsóknaaðstaða hliðargreina á Landspítala háskólasjúkrahúsi er ekki upp á marga fiska og þó hefur enn ekki verið minnst á sameindaerfðafræðina sem flæmist um lóðina líkt og óshólmar Nílar. Ef ekki væri fyrir hjálpsemi og langlundargeð þess frábæra starfsfólks sem á spítalanum vinnur væri ástandið óbærilegt.
 
Ég kem ekki til með að njóta góðs af bættri starfsaðstöðu nýs Landspítala verði af henni, en vil segja við þá sem tekið hafa að sér að tefja fyrir uppbyggingu nýs sjúkrahúss að ábyrgð þeirra er mikil.