Forval á næstu vikum

4. apríl 2013

Á  næstu vikum verður farið í forval fyrir byggingu nýs Landspítala þar sem leitað verður eftir hönnunarhópum sem tekið geta þátt í verkefninu. Vegna stærðar verkefnisins þarf valið að fara fram á EES svæðinu. Þetta kom fram í viðtali við Gunnar Svavarsson, formann stjórnar og byggingarnefndar NLSH ohf., í Morgunútvarpinu á Rás 2 á dögunum.


Í viðtalinu rekur Gunnar hvernig í raun var farið af stað með spítalamálið í þriðja sinn haustið 2009 þegar haldin var samkeppni um tillögu að forhönnun bygginganna. Fimm hópar tóku þátt en Spital-hópurinn, sem samanstóð af fulltrúum frá níu arkitekta- og verkfræðistofa, innlendum og erlendum, sigraði. Hönnunarvinnan hefur farið fram síðustu tvö ár og er nú búið að hanna 25% verksins en 75% eru eftir.


Leitað eftir nýjum hönnunarhópum

Á síðasta degi Alþingis samþykktu þingmenn frumvarp þar sem fjármögnun nýbygginganna var breytt, verkefnið verður opinber framkvæmd en áður hafði verið gert ráð fyrir því að ríkið myndi leigja húsnæðið af verktakanum sem byggði það. 
Nú er hafin vinna við að undirbúa forval og er vonast til að hægt verði að auglýsa það á næstu vikum.  „Þar erum við að leita eftir nýjum hönnunarhópum sem eru tilbúnir að gefa sig fram,“ segir Gunnar og bætir við að síðan fari hóparnir í gegnum mat á hvort þeir standist þær gæða- og hæfniskröfur sem settar eru fram. Gert er ráð fyrir að forvalið taki um þrjá til fjóra mánuði en eftir það verður haldið lokað útboð fyrir hönnunina. 


Mikil vinna áður en byrjað er að grafa

Húsin sem þarf að hanna eru fjögur.  Annars vegar meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin, og rannsóknarhús og hins vegar tvö hús sem eru minni og einfaldari, sjúkrahótel og bílastæða- og skrifstofuhús. „Miðað við áætlanir sem lagt var upp með átti hönnun stærri bygginganna að geta lokið 2014 eða í byrjun árs 2015. Hönnun minni húsanna gæti gengið hraðar,“ segir Gunnar. 


Hann bendir meðal annars á að í raun sé verkið hafið, verkfræðingar og arkitektar séu stundum sárir yfir því að alltaf sé rætt um að verk hefjist þegar byrjað er að grafa.

Viðtalið í Morgunútvarpi Rásar 2