Framúrskarandi þjónusta veitt í flaggskipi heilbrigðisþjónustunnar, segir heilbrigðisráðherra um byggingu á nýjum meðferðarkjarna

27. apríl 2021

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að uppbygging á nýjum Landspítala sé á fullri ferð og að ekkert fjárfestingaverkefni ríkisstjórnarinnar sé stærra á þessu ári.

„Við sjáum nú byggingar sem breyta algjörlega forsendum Landspítala rísa. Öll þjónusta verður á einum stað. Við erum að tala um allt að 600 legurými í heildarskipulagi spítalans og stoðkerfi við þau innan seilingar.

Það skiptir miklu máli; ekki aðeins fyrir sjúklinga heldur einnig aðstandendur og starfsmenn,“ segir Svandís.

„Allt á einum stað og hugsað sem ein heild,“ segir Svandís. Einnig að þótt unnið sé að þarfagreiningu fyrir heilbrigðisþjónustuna og þær byggingar sem nú eru nýttar sé þegar hugsað til framtíðar. Það sjáist til að mynda með aukinni göngudeildarþjónustu við Eiríksgötu til viðbótar við þá sem rísi.

„En meðferðarkjarninn er stóra skrefið sem snýst um að koma þessu flaggskipi íslenskrar heilbrigðisþjónustu í nútímalegt húsnæði. Það skiptir máli fyrir þjónustuna sem verður sambærileg við það sem best gerist.“

Svandís segir mestu skipta núna að ljúka framkvæmdunum og koma starfseminni fyrir. „Við erum að tala um fjárveitingar af allt annarri stærðargráðu en annað um þessar mundir.

Við veitum 12 milljörðum af fjárlögum ársins 2021 til nýs spítala. Verkefnið er á fullri siglingu og nýr spítali er eitt helsta áhersluverkefni mitt“.

Svandís segir það eitt áhersluverkefna ríkisstjórnarinnar að koma spítalanum á raunverulegt og öflugt framkvæmdastig. „Það er efst á blaði að setja fullan kraft í þessa framkvæmd. Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um það og mér finnst vera almennur stuðningur, bæði í samfélaginu og á þinginu, við að þessari starfsemi sé búin nútímaleg aðstaða. Uppbyggingin hefur því verið eitt af stóru verkefnum mínu í starfi.“