• New national hospital

Gisting í boði

18. desember 2012

Sigurður Guðmunsson læknir.  Birtist í MorgunblaðinuSviðið er sjúkradeild á Landspítala í morgunsárið. Veikt fólk liggur á öllum stofum deildarinnar, en einnig eru þrjú rúm á ganginum. Í þeim er líka fólk, veikt fólk. Maður er í fremsta rúminu, veikindalegur, grár og gugginn. Hann er að borða morgunmatinn, er að drepa smjöri á brauðsneið í skjannabirtu neonljósa gangsins. Hjúkrunarfræðingarnir eru á þönum að sinna sjúklingum, það er ys og þys, reyndar hávaði eins og stundum er í svipaðri mannmergð í flugstöðinni í Keflavík. Hann brosir til læknanna þegar þeir troða sér fram hjá rúminu til að komast inn á ganginn, en hvorki kvartar né skammar þá fyrir þennan aðbúnað sem honum er búinn, geðprýðismaður.

Nokkru innar á ganginum er kona í sínu rúmi. Hún er hóstandi, með lungnabólgu, líður illa, með háan hita. Læknum hennar (og henni) finnst ekki þægilegt að skoða hana á miðjum ganginum, hlusta hana eins og þarf, ýmsum þykir óþægilegt að fletta sig klæðum í margmenni. Í þriðja rúmi gangsins er aldraður karlmaður, hann er með elliglöp, er illa áttaður á stað og stund, órór, kallar í sífellu til fólksins sem er að sinna honum. Á ganginum stendur líka maður að tala í farsíma. Hann er ættingi sjúklings sem er í rúmi á stofu sem betur fer, en fór fram á gang af tillitsemi við stofufélaga sjúklingsins. Hann talar nokkuð hátt um einhverja gjörninga sem hann þarf að sinna þennan morgun.

Þetta er ekki óvenjulegur morgunn í lífi á sjúkradeild á stærstu heilbrigðisstofnun þjóðarinnar þessi misserin. Morgnarnir eru ekki allir svona, en alltof margir. Getum við boðið veiku fólki upp á þessi býti? Hvað er að hjá okkur ef við látum þetta viðgangast og yfir okkur ganga? Þetta er þjóðarósómi. 

Markviss og stöðugur niðurskurður 
Ástæða þessa er fyrst og fremst sú að rúm vantar á spítalann og of margir sjúklingar (nú að meðaltali 40-50 manns, eða sem samsvarar tveimur sjúkradeildum) eru að bíða eftir vistun annars staðar. Gangainnlagnir eru ekki nýjar af nálinni á Landspítalanum, því miður. Fyrir nokkrum árum var hins vegar unnt að taka fyrir þær. Það var gert með betra mati á þörf fólks til innlagnar á hjúkrunarheimili, svonefndu vistunarmati. Síðustu misserin hefur hins vegar sótt í sama farið á ný, enda hefur markviss, ákveðinn og stöðugur niðurskurður í fjárveitingum til spítalans valdið því að stjórnendum spítalans hefur verið nauðugur einn kostur að loka sífellt fleiri rúmum. Innlagnir veiks fólks á ganga eru eins og draugar úr grárri forneskju sem stinga upp kollinum á ný.

Gangalegur hafa verið lítillega til umræðu eftir ágæta grein kollega míns, Steins Jónssonar, í Morgunblaðinu nýverið. Flestir virðast hins vegar yppta öxlum. Reyndar hefur illur aðbúnaður kúa vakið mun meiri athygli og samúð en aðbúnaður veiks fólks á göngum Landspítala, með djúpri virðingu fyrir nautgripum á Vesturlandi. Þessi vandi bætist við annan vanda sem meira hefur verið til umræðu, svo sem óviðunandi laun og afdönkuð tæki, sem eru jafnvel orðin hættuleg.

Af hverju er heilbrigðisþjónusta ekki kosningamál? 
Á þeim tíma sem við höfum horft á hvernig sífellt hefur verið þrengt að heilbrigðisþjónustu hefur illa reknum fjármálastofnunum og tryggingafélögum ítrekað verið komið til bjargar, ákvarðanir teknar um rándýr og umdeild jarðgöng, dýrar skoðanakannanir gerðar á stjórnarskrá. Í sjálfu sér er ég ekki að segja að ekki sé hægt að færa rök fyrir því að bjarga SpKef eða Sjóvá. Þau eru vafalítið til. Hins vegar ræðum við ekki um vægi og vigt, mikilvægi þess að raða málum í forgang. Hvort vegur þyngra styrk og öflug heilbrigðisþjónusta eða hagsmunir þeirra sem ráku SpKef og Sjóvá og fólks sem átti þar fjármuni? Við þurfum alla vega að takast á um þessi sjónarmið, en við gerum það ekki. Einhverra hluta vegna hafa heilbrigðismál aldrei verið kosningamál á Íslandi. Nú líður að alþingiskosningum, hver vonbiðilinn á fætur öðrum reynir að höfða til okkar kjósenda. Meira er hins vegar fjallað um Evrópusamband, stjórnarskráruppkast og götustrákahegðun í þingsölum en mikilvæg mál sem alla snerta, menntun og heilbrigði. Núverandi fjárframlög til þessara mála í ríki sem kennir sig við velferð eru einfaldlega ekki viðunandi.

Í fjárlagafrumvarpi haustsins er boðað að heilbrigðisþjónusta verði undanþegin niðurskurði á næsta ári. Það eru vissulega góðar fréttir, mál var að linni. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til aðbúnaðar og tækja nema að litlu leyti svo ekki sé talað um laun. Við horfum því fram á status quo, það er hætt að dýpka í vaðinu sem við erum í, en ekki farið að grynnka. Veit ekki hvað það er mikil huggun. Gangainnlagnir eru einfaldlega ein birtingarmynd vandans. Kannski þurfa þeir sem með fjárlagagerð sýsla, þingmennirnir okkar, að reyna það á eigin skinni hvernig er að eiga nótt á sjúkragangi. Hvernig er að vakna við glærubirtuna, öll hljóðin af ganginum, láta hlusta sig í margmenni og ræða fyrir allra eyrum um erfið mál? Kannski ætti Landspítalinn að bjóða þeim gistingu eina nótt í sjúkrarúmi á gangi, staðgóður morgunverður fylgir.