Glæsileg BREEAM vottun sjúkrahótels

17. september 2021

Nýlega var Nýjum Landspítala ohf. úthlutað af hálfu BRE Global Ltd. lokaumhverfisvottun sjúkrahótelsins. Hlaut NLSH ohf. hæstu BREEAM einkunn sem gefin hefur verið hér á landi fyrir sjúkrahótelið eða 72,9% skor og “Excellent” einkunn. 

Aðeins eru um 30 íslensk verkefni sem farið hafa þá vegferð að fá BREEAM vottun. Eru fjórar nýjar byggingar komnar með lokavottun og eitt verkefni vegna endurgerðar á húsnæði. Sjúkrahótelið er eina verkefnið sem hlotið hefur “Excellent” skor. Áður hafði Nýr Landspítali fengið 81% stigaskor í hönnunarvottun hússins og hlaut einnig “Excellent” einkunn samkvæmt BREEAM kerfinu. Er það einnig hæsta einkunn sem bygging hefur fengið í BREEAM hönnunarvottun á Íslandi.

Í alþjóðlega BREEAM vottunarkerfinu er lagt mat á marga mismunandi þætti eins og umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar, góða orkunýtni og vatnssparnað, val á umhverfisvænum byggingarefnum, úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, viðhald vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis og lágmörkun ýmis konar mengunar frá byggingu t.d. varðandi frárennsli og ljósmengun.

BREEAM matsfulltrúi sjúkrahótels var Helga Jóhanna Bjarnadóttir, efna- og umhverfisverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu hf. Verkefnastjórar Nýs Landspítala störfuðu með fjölmörgum aðilum vegna undirbúnings verkefnisins, sem tekur yfir langan tíma m.a. Framkvæmdasýslu ríkisins, Yrki arkitektum, Glámu Kím arkitektum, verkfræðistofunum Conís, Raftákn, Verkhönnun og Verkís, verktakafyrirtækinu Munck Island og Landspítalanum.

Sjúkrahótelið var tekið í notkun í febrúar 2019 og hefur verið rekið af Landspítalanum frá þeim tíma.  Sjúkrahótelið er mikil þjónustuviðbót og hefur aðsókn og nýting hótelsins verið yfir 90% sem er einsdæmi. Mikil ánægja er hjá gestum hótelsins og öllum sem að því koma. Sjúkrahótelið er fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þurfa vegna heilsu sinnar að dvelja fjarri heimabyggð vegna rannsókna eða meðferðar. Þá sem dvalið hafa á sjúkrahúsi og þurfa frekari endurhæfingu og bata fyrir heimferð. Aðstandendur og fylgdarmenn þeirra sem sækja heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar. 

Sjúkrahótelið er fjórar hæðir og kjallari. Herbergi eru 75 talsins, fjölbreytt að gerð, m.a. með aðstöðu fyrir hreyfihamlaða og stærri herbergi eru í boði yrir fjölskyldur. Í húsinu er veitingasalur, setstofa, sólstofa, starfsstöð hjúkrunarfræðinga og samverurými. Sjúkrahótelið tengist deildum Landspítala í kjallara með tengigöngum.

Finnbogi Pétursson myndlistarmaður kom að verkinu, en samráð var við Listskreytingasjóð ríkisins. Ljósgrá klæðning hússins hefur skírskotun í granít berglög sem byggt hafa Ísland lag fyrir lag, en einnig er stuðst við svargrátt basalt.