Hagkvæmni í byggingu neðri kjallara meðferðarkjarna

15. ágúst 2022

Við jarðvinnu meðferðarkjarna var skilið eftir mikið af svokölluðum strendingum, sem urðu eins og litlar eyjar í húsgrunninum (sjá mynd). Var það gert til þess að nota þyrfti minna af efni við uppfyllingar. Samhliða þessu þurfti þá einnig að sprengja minna, en hefði, við jarðvinnuna.

Við þessa tilhögun var verið að lágmarka aðflutning á efni og um leið að lækka kostnað við jarðvinnuna verulega. Þess má geta að þrátt fyrir þetta er aðkeyrt efni í uppsteypuverkefninu áætlað um 85.000 m3. Í neðri kjallara meðferðarkjarna verður ekki nein heilbrigðisstarfsemi heldur er um að ræða tæknikjallara. Þar verður umferð sjálfvirkra flutningsvagna, auk ýmissa tæknirýma svo sem fyrir sjálfvirkt sorp- og línkerfi hússins svo og hefðbundinn lagnakjallari.