• New national hospital

Háskólasjúkrahús - rétt hugsað á réttum stað

14. júlí 2006

Nýlega hefur komið fram gagnrýni á fyrirhugaða byggingu háskólasjúkrahúss (Landspítala Háskólasjúkrahúss – LSH) við Hringbraut.  Ýmis rök hafa verið talin til eins og að það sé mun betra að koma sjúkrahúsi fyrir í Fossvogi, betra sé að dreifa sjúkrahúsum um bæinn frekar en að sameina þau, það sé rangt að reisa sjúkrahús í miðbænum eða að tenging við Háskóla Íslands (HÍ) skipti engu máli.  Við erum ósammála öllum þessum atriðum og fögnum heilshugar fyrirhugaðri byggingu háskólasjúkrahúss við Hringbraut, í nánd við Háskóla Íslands.

Flest rök hníga að því að framtíðaruppbyggingu LSH sé best fyrir komið við Hringbraut.  Rök þessi voru m.a. sett fram af Ingibjargarnefndinni svonefndu en niðurstöður nefndarinnar voru vel kynntar á sínum tíma þó hvorki almenningur né fjölmiðlar hafi þá sýnt málinu mikinn áhuga. En hver eru rökin fyrir því að LSH og Háskóli Íslands eigi samleið?  LSH er ekki aðeins sjúkrahús heldur háskólastofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki í menntun nema í fjölmörgum greinum heilbrigðis- og lífvísinda.  Öll kennsla í læknisfræði, hjúkrunarfræði, lífeindafræði, geislafræði og sjúkraþjálfun fer fram í samvinnu LSH og HÍ.  Kennarar í þessum greinum eru oft starfsmenn beggja stofnana og nemendur sækja menntun sína til þeirra beggja.  Ekki er unnt að slíta þátt LSH frá þætti HÍ í þessari kennslu.  Auk kennslunnar stunda starfsmenn þessara stofnana rannsóknir á ýmsum sviðum heilbrigðis- og lífvísinda og er LSH ein öflugasta rannsóknarstofnun landsins með fjölda öflugra vísindamanna innanborðs.  Margir þeirra eru einnig starfsmenn Háskóla Íslands eða tengjast þeirri stofnun með einhverjum hætti.  Þetta svið rannsókna er eitt þróttmesta svið vísindarannsókna hér á landi.  Rannsóknir og fræðastörf á LSH efla starfsemi sjúkrahússins og auka þekkingargrunn starfsmanna.  Erlendis eru gæði sjúkrahúsa oftast metin út frá tengslum vísinda- og fræðastarfa við klíníska starfsemi. Þetta er gert þar sem þessi beinu tengsl leiða til betri heilbrigðisþjónustu við sjúklinga sem þangað leita og meiri framfara þegar til langs tíma er litið. Því má gera ráð fyrir að gæði LSH sem sjúkrastofnunar muni aukast á svipaðan hátt þegar tengsl þessi verða efld.  Tenging LSH við Háskóla Íslands og stofnanir hans skiptir því LSH afar miklu máli hvað menntun, vísindi og nýsköpun varðar.  Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að skerpa tengsl þessara stofnana og gera þau sýnilegri.  Af umræðunni undanfarið er þó ljóst að hér er enn verk að vinna. 

Stór hluti hins nýja sjúkrahúss er ætlaður undir háskólastarfsemi og er m.a. gert ráð fyrir að Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum verði flutt í þetta húsnæði auk ýmissar annarrar starfsemi HÍ sem nú er dreifð víðs vegar um borgina.  Þetta skapar grundvöll fyrir langþráðri samþjöppun þessarar starfsemi HÍ sem og tengsl þeirra við LSH.  Slík samþjöppun skapar gríðarleg tækifæri fyrir þá sem stunda rannsóknir í heilbrigðis- og lífvísindum. Með því að færa rannsóknir þessar á einn stað skapast bein tengsl milli þeirra eininga og rannsóknahópa við LSH og HÍ sem starfa á þessu sviði.  Til verður umhverfi þar sem kennarar, sérfræðingar og nemendur eiga greiðan aðgang hver að öðrum til viðræðna og samvinnu.  Í slíku umhverfi er auðveldara að byggja upp rannsóknatengt framhaldsnám og samnýting tækja, aðstöðu og hugmynda skapar suðupott nýsköpunar.  Návistin skapar þannig jarðveg sem leiðir til nýjunga í vísindum og tækni og eflir menntun og þjálfun nemenda.  Tengslin milli HÍ og LSH eru báðum stofnunum nauðsynleg og því er afar mikilvægt að LSH sé staðsettur eins nærri HÍ og mögulegt er.  Mikilvægast er þó að þetta eflir rannsóknasamfélagið og samkeppnishæfni þess.  Fyrir sjúkrahúsið og sjúklingana þýðir þetta að til staðar verður öflug þekking á sviði líf- og læknisfræði en þannig eru lögð drög að læknisfræði til framtíðar.  Sambærilegar breytingar er verið að gera víða um heim þar sem grunnrannsóknir í heilbrigðis- og lífvísindum eru að færast inn á sjúkrahúsin til að auka möguleika á hagnýtingu rannsókna og nýsköpunar.

Þessu til viðbótar má benda á áætlaða uppbyggingu hátækniiðnaðar og sprotafyrirtækja í Vatnsmýrinni. Slík tengsl háskólastarfsemi og nýsköpunar er mikilvæg leið til að skapa grundvöll að framsæknu nútímaþjóðfélagi. Við horfum björtum augum til þeirrar framtíðaruppbyggingar heilbrigðis- og lífvísinda í nánum tengslum við háskólastarfsemi og þekkingar- og hátækniiðnað. Slíkur kjarni er líklegur til að skapa frjóar hugmyndir, betra heilbrigðiskerfi og veita auknum krafti í uppbyggingu á nútíma borgarsamfélagi í Reykjavík.