• New national hospital

,,Hátæknisjúkrahús" eða hvað?

29. mars 2006

Í umræðu síðustu missera um málefni nýs háskólasjúkrahúss hafa margir notað orðið "hátæknisjúkrahús". Að tala um hátæknisjúkrahús er séríslenskt fyrirbrigði.

Þó ég lesi og hlusti víða á umræðu um sjúkrahúsmál á erlendum vettvangi, virðist notkun orðatiltækis sem á ensku væri hægt að kalla "high technology hospital" ekki vera til. Þetta nýyrði er í ofanálag stundum notað í tengslum við einhvers konar úrtölu um Landspítala - háskólasjúkrahús og reynt að gera því skóna að ekki sé þörf á að byggja upp fullkomið, alhliða háskólasjúkrahús í landinu, vegna þess að það hljóti að vera svo dýrt að hafa alla inni á "hátæknisjúkrahúsi". Væntanlega ætti þá að vera til mótvægi sem mætti kalla "lágtæknisjúkrahús", en hver vill svoleiðis fyrirbrigði?

Rétt er að benda á að flest sem gert er á Landspítala - háskólasjúkrahúsi þarfnast ekki neinna sérstakra tækniúrræða, heldur fyrst og fremst góðs fagfólks sem leggur alúð í greiningu og meðferð þeirra sem á stofnunina leita. Þekking, menntun og skynsemi í notkun venjulegra úrræða skiptir langmestu í daglegu starfi spítalans. Á því sviði spítalans, sem undirritaður stýrir, eru algengustu atburðirnir, fæðingar, fullkomlega eðlilegt ferli og þarfnast ekki sérstakra tæknilegra úrræða, umfram það sem allir vildu geta notið á tækni- og tölvuöld sem við lifum. Síritun á fósturhjartslætti telst engin hátækni nú á tímum. Meirihluti aðgerða á Landspítalanum eru heldur ekki sérstaklega tæknivæddar, t.d. verður ekki sagt að keisaraskurðir eða viðgerðir á kviðsliti, gallblöðru- eða botnlangatökur krefjist meira en meðaltæknivæðingar. Þar eru notaðir sjálfvirkir, tiltölulega einfaldir blóðþrýstings-, púls- og hitamælar, góð venjuleg skurðaáhöld, saumaefni eða kviðsjár af því tagi sem öll sjúkrahús í vestrænum löndum eiga. Þó ný bygging rísi þá mun sú bygging ein og sér ekki breyta meðferð sjúkdóma. Við notum alla þá hátækni nú þegar sem mun verða notuð í nýju húsi að teknu tilliti til framtíðarþróunar. Ný bygging breytir fyrst og fremst því að öll aðstaða bæði fyrir heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga batnar. Það á bæði við um venjulega meðferð og hátæknimeðferð. Barnaspítalinn nýi er einmitt dæmi um það hve vel getur tekist til í þessum efnum.

Ekki mundu menn vilja hafa ástandið hér eins og það er, því miður, víða í fátækum löndum heims, þar sem starfsfólkið verður að láta sér lynda að geta jafnvel lítið gert til að hjálpa sjúklingum af því öll venjuleg aðföng vantar. Þar er skortur á tækni sem allir vildu fegnir hafa. Tæknin er hins vegar til staðar hér, ef á þarf að halda. Þegar skurðaðgerð verður erfið, þegar beita þarf sérstökum stuðnings- og lífgunarúrræðum og þegar þarf að nýta nútíma þekkingu út í ystu æsar, þá eigum við hér til það sem þarf. Er þá nokkur sá, sem ekki vildi hafa aðgang að þannig aðstæðum á vel búnu háskólasjúkrahúsi, þar sem starfsfólkið er í fremstu röð hvað varðar þekkingu, menntun og færni? Hjartaþræðingar og meðferð kransæðastíflu eru dæmi sem allir þekkja.

Í hugtakinu háskólasjúkrahús felst staður þar sem menntun og vísindi leiða þjónustuna við sjúklinga og halda henni þar með í fremstu röð. Á þannig stöðum vilja flestir Íslendingar geta leitað sér lækninga þegar þarf og þeir vilja líka að þar séu til tækniúrræði til að tryggja þeim velfarnað. Umræðan á að snúast um uppbyggingu háskólasjúkrahúss sem stenst samanburð við áþekkar stofnanir í nágrannalöndunum, en ekki á að nota orðskrípi sem er jafn illa skilgreint og klisjukennt og "hátæknisjúkrahús". Vilji menn vera hástemmdir væri nær að tala um hágæða sjúkrahús í stað hátækni. Fullkomin tækni er hluti af heimilislífi flestra landsmanna á einu eða öðru formi, sjálfsagður þáttur í daglegu lífi. Tækni - stundum mikil og flókin tækni, er líka sjálfsagður hluti vel búinna heilbrigðisstofnana og óaðskiljanlegur hluti kennslu- og háskólasjúkrahúsa, þar og þegar við á og alltaf í takt við góð og líknandi mannleg samskipti.