• New national hospital

Hefur stefnumótun í heilbrigðismálum brugðist?

13. mars 2006

Í vetur hefur Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, nýútskrifaður doktor í stjórnsýslufræðum, haldið uppi málefnalegri umræðu og komið með mjög athyglisverðar ábendingar í greinum og fyrirlestrum um að skynsamlegt væri fyrir ráðamenn að skilgreina þjónustu í heilbrigðiskerfinu, hverju hún eigi að skila, hvernig henni verði best fyrir komið og heppilegt gæti verið að ljúka þeirri vinnu áður en ráðist verður í nýjar byggingar fyrir Landspítala.

Umræða um heilbrigðismál af hálfu þeirra sem með málaflokkinn fara, er því marki brennd að heilbrigðismál eru aldrei skoðuð í heild, heldur er eingöngu ræddur sá afmarkaði kimi sem hæst ber hverju sinni. Framtíðarsýn eða mótaðar hugmyndir um hvert skuli stefnt er ekki til. Ráðamenn heilbrigðismála hafa fallið í þá gryfju að trúa því að húsbygging, bygging spítala, sé sama og stefnumótun í heilbrigðismálum. - Þá fyrst, þegar stefnumótun í heilbrigðismálum hefur farið fram, þarf að huga að umgjörðinni á borð við hvaða húsnæði það er sem hentar til þeirrar starfsemi, sem er fyrirhugað að hafa þar með höndum.

Það er einföld staðreynd að rekstur heilbrigðiskerfisins lýtur sömu lögmálum og allur annar rekstur varðandi kostnað og fjárfestingu. Allir sem að rekstri koma, vita að heppilegast er að ákvarðanir í þeim efnum, séu teknar af þeim sem þurfa síðan að búa við ákvarðanirnar. Í íslenska heilbrigðiskerfinu eru þau lögmál sem um þetta gilda rofin og t.d. eru ákvarðanir um fjárfestingar teknar af ráðuneyti og Alþingi. Eins er farið um ákvarðanir um skiptingu fjár milli sjúkrahúsa annars vegar og sérfræðilæknisþjónustu utan þeirra hins vegar, þó mörkin þar á milli séu afar óljós og verði eðli málsins samkvæmt alltaf ógreinileg, þó ekki væri nema vegna framfara í læknavísindunum.

Hvers vegna er það ákveðið "að ofan" hvort aðgerðir og meðferð sjúkdóma fari fram innan eða utan sjúkrahúsa? - Hvers vegna fá sjúkrahús landsins ekki að stunda þá sérfræðilæknisþjónustu sem þau hafa getu og vilja til og fá að sitja við sama borð og læknastofur sérfræðinga úti í bæ? - Hvers vegna fá sjúkrahúsin ekki að veita þá þjónustu sem þau telja sér hagkvæmt að framkvæma og fá greitt í samræmi við það, án þess að þurfa að spyrja ráðamenn heilbrigðismála hvort það rúmist í verkahring þeirra? Hvers vegna fá sjúkrahús ekki að byggja/kaupa/leigja húsnæði sem hentar þörfum þeirra, í stað þess að þurfa að bíða ákvörðunar um það frá æðstu ráðamönnum?

Svörin við öllum þessum spurningum liggja í því fyrirkomulagi á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar sem heldur sjúkrastofnunum í spennitreyju misviturra aðila sem telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir stofnunum.

Fjárfesting og rekstur

Sem dæmi um fjárfestingu þar sem menn hafa farið offari eru tóma álman í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, sem byggð var fyrir hálfum öðrum áratug án þess að þörf hafi verið fyrir hana. Annað dæmi er þegar skortur verður á sjúkrahótela- og langlegurými á Landspítala, sem spítalinn er fullfær sjálfur um að leysa, aðeins ef hann réði forgangsröðun framkvæmda sinna sjálfur. Er ekki eðlilegra að sjúkrahúsin geri ráð fyrir húsnæði sem hluta af kostnaði við þjónustu sína, meti húsnæðisþörf sína sjálf og ráðist í framkvæmdir í samræmi við það? Þegar kemur að byggingaframkvæmdum þá telja heilbrigðisyfirvöld sig vita best hvort og hvernig bygging henti stofnunum með ofangreindum árangri. - Vel má vera að sá spítali sem fyrirhugað er að byggja á Landspítalalóð sé einmitt af þeirri stærð og gerð sem ákjósanlegast mun þykja. Ef sú verður raunin þá er það aðeins fyrir heppni ráðamanna, en ekki vegna þess að stjórnvöld hafi mótaða stefnu í heilbrigðismálum, sem leiðir í ljós þörfina fyrir sjúkrahúsbyggingu af nákvæmlega þessari stærð, gerð og staðsetningu.

Þriðja dæmið, en það snýr að rekstri, er þegar Landspítali getur ekki sparað sér stórfé og útskrifað sængurkonur vegna þess að ekki er séð fyrir þjónustu við þær utan sjúkrahússins þar sem ekki næst samkomulag milli samninganefndar heilbrigðisráðuneytisins og ljósmæðra! Væri ekki eðlilegra að samningar við þennan hóp ljósmæðra væru í höndum Landspítala, þeirrar stofnunar sem á mestra hagsmuna að gæta að samningar náist? Því semur heilbrigðisráðuneytið ekki einfaldlega við Landspítala um að hann sjái fyrir allri heilbrigðisþjónustu við móður og barn en lætur Landspítalanum síðan eftir útfærsluna á því? Þegar kemur að því að veita heilbrigðisþjónustu innan spítalanna og utan þeirra, þá telja heilbrigðisyfirvöld sig vita best hvernig þeirri skiptingu eigi að vera háttað, betur en aðilarnir sem veita þjónustuna og sem þurfa að taka afleiðingunum t.d. þegar samningar nást ekki.

Atriði af þessu tagi bera fyrst og fremst vott um að fjármögnunarleiðir heilbrigðiskerfisins fara ekki eftir þeim eðlilegu tekjuleiðum sem allur venjulegur rekstur lýtur. Þær eru fyrst og fremst stofnanamiðaðar í stað þess að horft sé til einstaklingsins og þeirrar þjónustu sem hann þarf á að halda.

Nútímavæðing og stefnumótun í heilbrigðismálum

Heilbrigðisyfirvöld ættu eingöngu að skilgreina hvaða þjónustu þau vilja kaupa og gera kröfur um gæði hennar. Ákvarðanir um húsbyggingar, hvar þjónustan er veitt eða hver veitir hana, á ekki að skipta ráðamenn heilbrigðismála neinu máli. Hvort hún er veitt af Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Skjóli, Læknastöðinni Orkuhúsinu eða einhverri annarri stofnun í eigu ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila. Á meðan opinberum sjúkrastofnunum er uppálagt með ákvörðunum heilbrigðisyfirvalda, hvað skuli vera á þeirra verksviði og hvað ekki, þá getur það ekki leitt til annars en þess að sjúkrastofnanirnar og starfsmenn þeirra þróast ekki með þeim hætti sem þeim er nauðsynlegt.

Nýleg skýrsla starfsmanna Tryggingastofnunar sem benti á hvernig "reglur sjúkratrygginga [hafi] verið aðlagaðar mismunandi þörfum og félagsleg aðstoð verið takmörkuð við örfáar tegundir sjúkrakostnaðar, oft á grundvelli dægurþrass og pólitískra skyndi- eða sparnaðarþarfa, án nokkurrar heildarstefnu eða jafnræðissjónarmiða" færir okkur enn frekar heim sanninn um skort á framtíðarsýn ráðamanna og viljann til að færa til betri vegar það sem aflaga hefur farið í tímans rás.

Skýrslu starfsmanna Tryggingastofnunar er ekki hægt að líta öðrum augum en að þar sé um að ræða "neyðaróp" starfsmanna sem árum saman hafa farið fram á allsherjarúttekt á kerfinu einfaldlega vegna vandkvæða á að vinna eftir núverandi tilhögun og því óréttlæti og ósamræmi sem er innbyggt í það.

Kerfi sjúkratrygginga lýtur sömu lögmálum og önnur kerfi sem eiga að bæta þjónustu og afkomu þeirra sem þjónustunnar njóta; kerfið þarf að vera gegnsætt og hlutlaust. Öllum óskum um vinnu að því að einfalda og auka gegnsæi íslenskra almannatrygginga með heildarendurskoðun kerfisins er ekki sinnt og látið reka á reiðanum frekar en takast á við viðfangsefnið sem við hefur blasað svo árum skipti.

Ástæða er til að óttast að einhverjir álíti að sá vandi sem við er að glíma í heilbrigðiskerfinu verði leystur með auknum fjárveitingum. Auknir fjármunir munu aðeins hjálpa til við að fela þann innbyggða skipulagsvanda sem fjármögnun heilbrigðiskerfisins býr því og fresta því að á vandanum verði tekið. Sá skipulagsvandi er búinn að vera ljós árum saman og því miður vottar ekki fyrir að fram fari vinna að neinni stefnumörkun á því sviði.

Sú nálgun málaflokksins sem ég hef bent á sem betri kost og er rakin hér á undan, er ekki ný af nálinni heldur einföld sannindi hagfræðinnar, sem lengi hafa verið ljós þó enn virðist langt í land með að þau sannindi skili sér til ráðamanna heilbrigðismála. Allt ber þetta þó fyrst og fremst vott um hugmyndafátækt þeirra sem hér ættu að fara í fararbroddi.