Hönnun á rörpóstkerfi í meðferðarkjarna og rannsóknahús langt komin

14. október 2022

Gerður var samningur á síðasta ári við Aerocom, Norway um hönnun, framleiðslu og uppsetningu rörpóstskerfis í nýbyggingum NLSH eftir útboðsferli. Aerocom hefur unnið hönnunina í samstarfi við aðalhönnuði meðferðarkjarna og rannsóknahúss, sem er hönnunarsamsteypan Corpus og á grundvelli þarfagreiningar. Hönnun kerfisins í meðferðarkjarna er að mestu lokið og er kerfinu ætlað að tengja saman allar deildir hússins.

Meginhlutverk kerfisins er einkum tvíþætt, þ.e. hraður flutningur sýna frá sjúklingadeildum í meðferðarkjarna yfir í rannsóknarkjarna í rannsóknahúsi, þar sem kerfið getur með sjálfvirkum hætti, skilað sýnaglösum beint inn á færiband rannsóknarkerfis og sent rörpóstshylkið heim aftur. Einnig sér kerfið um lyfjadreifingu, bæði daglega dreifingu lyfja frá apóteki til sjúklingadeilda og sérpantanir, beint af lyfjalager.

Aðgangsstýringar og skilgreiningar rétthafa til notkunar kerfisins tryggja öryggi þess, bæði varðandi sendingar frá deildum og móttöku sendinga.

„Verið er að vinna að hönnun rörpóstskerfisins í rannsóknahús, en hönnun þess er komin skemmra á veg en hönnun meðferðarkjarna. Gert er þó ráð fyrir því þessari hönnunarvinnu verði lokið á þessu ári. Gert er ráð fyrir að uppsetning lagna, stöðva og miðlægs tæknihluta rörpóstskerfisins hefjist á árinu 2024. Einnig er gert ráð fyrir því að rörpóstskerfið nái til annarra bygginga Landspítala við Hringbraut, en hönnun þess hluta kerfisins bíður ákvarðanatöku um skipulag á heildarstarfsemi Landspítala,“ segir Gísli Georgsson verkefnastjóri á tækni og þróunarsviði Nýs Landspítala.