• New national hospital

Hönnun nýrrar heilbrigðisþjónustu

10. júní 2006

Samtök atvinnulífsins bætast nú í hóp þeirra sem lýsa efasemdum um fyrirhugaðar framkvæmdir svonefnds hátæknisjúkrahúss í Vatnsmýri. Formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaga ÖBÍ ályktuðu þann 9. febrúar að heildarsamtök fatlaðra, sjúkra og aldraðra skyldu hið fyrsta koma að málinu. Fundurinn lagði á það áherslu að allir kostir væru gaumgæfilega skoðaðir varðandi nýtt hátæknisjúkrahús með fulltrúum notenda þjónustunnar. Mestu máli skipti að komið væri til móts við brýnustu þarfir þeirra um leið og vandað væri til uppbyggingar sjúkrahúsþjónustu, eins og þar sagði. ÖBÍ hefur ekki lýst yfir andstöðu við fyrirhugaðar framkvæmdir í Vatnsmýri en mikillar óánægju gætir með skort á samráði við notendur og framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, Evrópusamtök fatlaðra og fleiri aðilar hafa lagt mikla áherslu á flutning þjónustu af stofnunum og út í nærumhverfi fólks. Sennilega er hvergi verið að ganga lengra í þessa átt nú en í Danmörku þar sem sveitarfélögin hafa málaflokkinn mikið á sinni könnu. Akureyri er gott dæmi um mikilvægi nærþjónustu í málefnum aldraðra. Innan nokkurra mánaða verður þar enginn á biðlista eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða á meðan á sjöunda hundrað manns bíða í Reykjavík. Reynslan er góð, sama hvort rætt er við yfirvöld, þjónustuveitendur eða notendur þjónustunnar. Stjórn og ábyrgð nærþjónustunnar er í nærumhverfinu sem skilar sér í mun betri þjónustu.

Með tilkomu þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar hefur opnast gullið tækifæri til að flytja þjónustu af hefðbundnum stofnunum út í hverfin í auknum mæli. Þannig má hugsa sér að færa ýmis verkefni frá LSH yfir á heilsugæslustöðvar og þjónustumiðstöðvar og styrkja þar með nærþjónustuna. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að brýnt er að huga að lokun hefðbundinna geðsjúkrahúsa með öllu og þjónusta fólk í smærri einingum, minnka áherslu á lyfjagjöf og stytta innlagnartíma. Nú þegar er farið að vinna með þeim hætti í Trieste á Ítalíu og í Slóveníu með góðum árangri. Um það geta stjórnvöld aflað sér upplýsinga hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hins vegar gætir tregðu meðal tiltekinna fagstétta að viðurkenna gjaldþrot geðsjúkrahúsanna. Það er kominn tími til að horfast í augu við að þetta 19. aldar fyrirkomulag virkar alls ekki. Starfsfólk margt er gott en kerfið ónýtt. Sú þjónusta sem miklu varðar að sé stórefld er hin persónulega liðveisla, einstaklingsbundin þjónusta. Þá fær hinn, sjúki, fatlaði eða aldraði stuðningsfulltrúa á eigin forsendum til daglegra athafna. Þessi þjónusta er veitt í skötulíki á Íslandi í dag og í engu samræmi við veruleikann á hinum Norðurlöndunum. Það sama á við um endurhæfingu. Hér er um að ræða fjárfestingu í fólki og þjónustu svo þúsundir megi hverfa úr aðgerðaleysi til virkni og skapandi samfélagsþátttöku. Góð félagsleg þjónustu minnkar heilbrigðiskostnað. Svo einfalt er það. Daglega berast fréttir af rekstrarvandræðum Landspítala - háskólasjúkrahúss. Ekki eru til peningar til að greiða hjúkrunarfræðingum sómasamleg laun og því stuðst við starfsmannaleigur og ekkert lát virðist vera á kúgun unglækna. Biðlistar eftir aðgerðum eru langir og aldraðir teppa rúm vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Búast má við að með því að steypa allri starfseminni saman í eina byggingu megi ná einhverjum rekstrarsparnaði til framtíðar en hér eru bara of margir lausir endar og ég er ekki sannfærður um að allir kostir hafi verið grandskoðaðir. Fyrirfram er ljóst að stór hluti LSH verður ekki í fyrirhuguðu sameiginlegu sjúkrahúsi s.s. geðsvið, Barna- og unglingageðdeild og nýr barnaspítali Hringsins. Í Fossvogi hefur verið byggt upp stórt og gott sjúkrahús á alþjóðlegan mælikvarða. Er rétt að fórna því? Ég er ekki sannfærður um að útilokað sé að stækka þann spítala fyrir miklu minni tilkostnað. Með aukinni tækni minnkar þörfin á legurýmum og því spurning hvort nýr spítali þurfi að vera svona stór. Hvað með samkeppni um starfsfólk og val sjúklinga? Með ályktun formanna og framkvæmdastjóra aðildarfélaga ÖBÍ þann 9. febrúar sl. var óskað eftir samráði um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu. Við því hefur ekki verið orðið af hálfu bygginganefndar hins fyrirhugaða hátæknisjúkrahúss. Heildarhagsmunasamtök fatlaðra hafa aldrei verið boðuð til fundar vegna verkefnisins. Þó má með nokkrum rökum segja að fá ef nokkur hagsmunasamtök hafi ríkari hagsmuni af því að vandað sé til þessarar vinnu og hugsað vel fyrir þörfum notenda en ÖBÍ með á þriðja tug þúsunda félagsmanna sinna. Sú bygging sem nú er á teikniborðinu kostar gríðarlegar fjárhæðir, sennilega hátt í hundrað milljarða þegar upp verður staðið. Um er að ræða fjármagn sem varið verður til velferðarmála á Íslandi á næsta áratug, fjármagn sem tekið er úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar og því ekkert einkamál nokkurra núverandi, fráfarandi og fyrrverandi stjórnmálamanna hvernig með það er farið.