• New national hospital

Hús við Hringbraut - miðbæjarrómantík?

29. febrúar 2012

Áform um byggingu nýs húss yfir sameiginlega starfsemi Landspítala og Háskóla Íslands eiga sér langa sögu. Umræða hófst fyrir alvöru fyrir tæpum 15 árum í aðdraganda sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík sem varð um mitt ár 2000. Um 2-3 árum síðar var hinni nýju spítalabyggingu valinn staður á Grænuborgartúni, á lóð Landspítala við Hringbraut.

Af hverju var það gert? Var þetta einhver miðbæjarrómantík, fortíðarhyggja, virðing við gamla Landspítalann, stríðni við íbúa Þingholtanna? Nei, ekkert af þessu, auðvitað. Tvær ástæður vógu hins vegar þyngst. Sú fyrri er nálægð við háskólann. Meginrök fyrir sameiningu spítalanna á sínum tíma, að minnsta kosti í huga starfsmanna, voru efling starfsemi spítalans, að bæta þjónustu hans við sjúklinga og að styðja hann og styrkja sem vísindastofnun og kennslustofnun. Tilgangurinn var með öðrum orðum sá að efla spítalann sem háskólasjúkrahús og að gera stofnunum kleift að blanda saman starfsemi sinni enn frekar, styrkja samstarf og samvinnu til að efla þjónustu, rannsóknir og kennslu. Vel á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn HÍ.

Fleira en nálægð við heilbrigðisdeildir kemur hér til. Mikil og vaxandi samvinna er milli félagsvísindafólks og þeirra sem starfa að heilbrigðisþjónustu, enda eru félagslegir áhrifaþættir heilsu sífellt að verða mönnum ljósari. Framfarir í læknisfræði byggja í sívaxandi mæli á þróun þekkingar í verkfræði og tölvunarfræði. Fleiri greinar má nefna, t.d. sagnfræði og mannfræði. Hér skiptir því nálægð Landspítala við háskólann allan miklu máli. 
Hin ástæða staðarvalsins er sú að á Hringbrautarlóð er mun meira af byggingum sem nýta má áfram en hefði nýju húsi verið komið fyrir í Fossvogi. Bygging við Hringbraut er því mun ódýrari en bygging á öllum stöðum öðrum sem nefndir hafa verið. Það væri með ólíkindum ef fólki finnst það ekki skipta máli.