Jákvæð umsögn um deiliskipulagið

19. nóvember 2012

Metró-hópurinn svonefndi, sem unnið hefur að hagkvæmnisathugun á gagnsemi jarðlestakerfa fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, skilaði fremur jákvæðri umsögn um deiliskipulag nýja Landspítalans við Hringbraut, að því er fram kom í frétt í Morgunblaðinu á dögunum. 

Hópurinn hefur að markmiði að efla þekkingu hérlendis á almenningssamgöngum, með sérstakri áherslu á jarðlestakerfi, en hann hefur m.a. unnið að umsögnum um léttlestir fyrir Alþingi. Í hópnum eru fimm kennarar og sérfræðingar við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.  

Kanna nýjar lausnir í almenningssamgöngum 
Hópurinn hefur kannað nýjar lausnir í almenningssamgöngum sem hefðu m.a. í för með sér minna flatarmál lands undir götur og bílastæði í mesta þéttbýlinu. Í samtali við Morgunblaðið segir Björn Kristinsson verkfræðingur hópinn taka undir þau sjónarmið að sameining Landspítalans á einn stað spari erfiða flutninga sjúklinga og auki hagkvæmni í nýtingu tækja. 

Telja lestir vera framtíðarlausn 
Sporbundnar almenningssamgöngur, með jarðlestum þar sem þær eigi við, séu framtíðarlausn sem geti gert annan áfanga nýja Landspítalans hagkvæmari. Með jarðlestakerfi megi spara bílastæði og ábati geti verið mikill. 
Hópurinn gerir þó nokkrar athugasemdir um nýjar byggingar Landspítalans, m.a. að byggingamagn í síðari áfanga nýja spítalans megi minnka, t.d. í bílastæðahúsum. Hópurinn telur að staðsetning spítalans á áætluðum stað við Hringbraut sé líklegast besti kostur sem völ er á ef öflug miðstöð almenningssamgangna á lóðinni verði til staðar, segir í fréttinni.