• New national hospital

Læknafélag Íslands - málsvari hverra?

16. september 2006

Tilefni þessara skrifa eru ályktanir sem fulltrúar á aðalfundi Læknafélags Íslands, sem haldinn var á Egilsstöðum helgina 2.-3. september, samþykktu og sendu til fjölmiðla.

Sú ályktun sem vakti mesta athygli fjölmiðlanna var sú um meintan stjórnunarvanda á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og nauðsyn þess að byggja einkasjúkrahús til að tryggja sem best atvinnufrelsi lækna. Það yrði best tryggt með því að hafa sem flestar stofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu.

Nú er það svo að sjúkrahús eru byggð og rekin vegna þess að þörf er á þjónustu við sjúka. Sjúkrahúsum er ekki ætlað að tryggja valfrelsi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks til starfa. Aðalmarkmið sjúkrahúsa er að veita eins góða heilbrigðisþjónustu og kostur er. Sjúkrahús eru flóknar og dýrar stofnanir, sennilega eru fá fyrirtæki eins háð mikilli tækni og sérþekkingu.

Í milljónaþjóðfélögum er talið að það þurfi u.þ.b. eina milljón manna til að standa á bak við tæknivætt sérgreinasjúkrahús.

Sú ákvörðun að sameina sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík var því mjög eðlileg og var það gert eftir að fengið hafði verið álit erlendra matsfyrirtækja. Nú er þessari sameiningu að mestu lokið.

Í kjölfar sameiningar var ákveðið að reisa nýtt sjúkrahús sem hýsa skyldi allar helstu sérgreinar lækninga, kennslu fyrir nema í heilbrigðisvísindum og vísindastarfsemi tengda læknisfræði og skyldum greinum. Brýnt er að hraða byggingu hins nýja sjúkrahúss eins og kostur er þar sem starfsemin er nú í nokkrum húsum og þau öll börn síns tíma, orðin of lítil og óhagkvæm í rekstri.

Fulltrúar hverra? 
Læknafélag Íslands er bæði fag- og stéttarfélag lækna sem hefur að leiðarljósi "að efla hag og sóma hinnar íslensku læknastéttar og auka kynni og stéttarþroska félagsmanna" og "að efla samvinnu lækna um allt sem horfir til framfara í heilbrigðismálum" eins og segir orðrétt í samþykktum LÍ.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.

L.Í. á að vera málsvari allra lækna og ályktanir aðalfundar eiga að endurspegla skoðanir meirihluta félagsmanna.

Þeir einir eiga atkvæðisrétt á aðalfundi sem eru sérstaklega til þess valdir. Að lýsa því í smáatriðum hvernig val fer fram er auðvitað að æra óstöðugan, í stuttu máli eru menn valdir eftir búsetu á landinu, þ.e. hin ýmsu svæðafélög eiga fulltrúa, svo og geta sérgreinafélög átt fulltrúa. Þetta fyrirkomulag hefur mjög verið gagnrýnt í áranna rás og ekki fengist á því veruleg breyting. Eðlilegt væri að allir félagsmenn gætu sótt aðalfund og átt þar bæði tillögu- og atkvæðisrétt. Stærstur hluti þeirra sem álykta um mál spítalans eru ekki starfsmenn hans og sumir hverjir hafa ekki komið þar inn fyrir dyr síðan í námi. Þeir hafa því litlar forsendur til að tjá sig af þekkingu um mörg innri mál spítalans. Fullyrðingar eins og að læknar á stofnuninni séu "handtíndir af misvitrum stjórnendum" eru auðvitað staðlausir stafir. Allar stöður yfirlækna og annarra lækna eru auglýstar og í þær ráðið eftir hæfni.

Þá er fullyrt að eftir því sem sjúkrahúsum fjölgi, batni þjónustan. Fullyrt er að Landspítali sé einokunarstofnun sem sjúku fólki sé nauðugur einn kostur að leita til en "þjónustan sé þó góð ef og þegar hún fæst."

Þegar ég var unglæknir á árunum 1981-85 voru þrjú bráðasjúkrahús í Reykjavík; Landsspítalinn, Borgarspítalinn og Landakotsspítali. Ekki varð ég vör við að sjúkrahúsin bitust um sjúklingana, frekar var reynt að komast hjá innlögnum, sérstaklega á öldruðu og langveiku fólki sem erfitt yrði að útskrifa að meðferð lokinni. Það var nefnilega eins þá og nú, bráðasjúkrahúsin bjuggu við þann vanda að þurfa að leggja veikt fólk á gangana. Þá, eins og nú, vantaði hjúkrunarrými og langlegurými.

Það sem hefur þó áunnist á undanförnum árum er að biðlistar eftir flestum aðgerðum hafa styst og þjónusta í hinum ýmsu sérgreinum læknisfræðinnar orðið betri og skilvirkari eftir sameiningu sjúkrahúsanna.

Flestir læknar sem starfa í mínu nærumhverfi eru í meginatriðum sáttir við þá stefnu sem stjórnendur sjúkrahússins hafa tekið í faglegum málefnum. Hér á sjúkrahúsinu er nefnilega þögull meirihluti sem vill gjarna vinna í friði og er ekki í sífelldum erjum við samstarfsmenn og stjórnendur. Ég veit að margir eru ósammála þeim ályktunum og greinargerðum sem aðalfundur L.Í. sendi frá sér þann 3. september varðandi málefni sjúkrahússins, í rauninni mætti túlka þær sem árásir á stofnunina.

Það hvarflar að mér að hér séu á ferðinni skoðanir nokkurra sérvitringa og nöldurseggja sem vita fátt um starfsemi sjúkrahússins.

Ég persónulega hef oft hugleitt að mínum hagsmunum væri betur borgið utan Læknafélags Íslands. Það eru margir að athuga sinn gang.