• New national hospital

Landspítali háskólasjúkrahús

13. mars 2006

Á langri ævi hef ég átt því láni að fagna að vera heilsuhraustur. Samt hefur það hent mig að þurfa að leggjast á sjúkrahús og hafa bæði Borgarspítalinn í Fossvogi og Landspítalinn komið þar við sögu. Á báðum þeim stöðum hef ég notið frábærrar umönnunar, sem ég þakka af alhug, sem ég og gerði í Velvakanda Morgunblaðsins hinn 16. október 2002. Hér vil ég ítreka það og aftur leggja mitt lóð á vogarskálarnar, til þess að viðhalda og efla starfsemi þeirra beggja. Þessa dagana er mér efst í huga, að við íbúar höfuðborgarsvæðisins fáum áfram að búa við það öryggi, sem aðeins tveir bráðaspítalar geta veitt, m.ö.o. að áfram verði starfandi bráðadeildir á tveimur stöðum í Reykjavík.

Það er vonum seinna að athugasemdir komi fram og umræður skapist um þá ákvörðun heilbrigðisyfirvalda, að "Landspítali - háskólasjúkrahús" skuli rísa á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Komið hefur fram, að danskir ráðgjafar hefðu verið fengnir á sínum tíma til að skoða málið og að þeir hafi í skýrslu sinni eindregið lagt til að háskólasjúkrahúsið yrði byggt upp á tveim stöðum. Færðu þeir fyrir því veigamikil rök, m.a. þau að nýta þær byggingar og fjárfestingar sem fyrir eru. Þessari skýrslu virðist hins vegar hafa verið stungið undir stól.

Mikil gagnrýni hefur komið fram og á það bent, að hér sé í uppsiglingu skipulagsslys og fyrirsjáanleg þrengsli fyrir þær stórbyggingar, sem fyrirhugaðar eru þarna skv. framlögðum tillögum. Sem betur fer er enn ekki farið að stinga niður skóflu og a.m.k. tvö ár í að svo verði. Þess vegna er ennþá tími til að doka við og skoða málið betur.

Í þessu sambandi er hollt að rifja upp færslu Hringbrautarinnar. Færslan var byggð á áratuga gömlum áformum, en framkvæmd nú nýlega gegn háværum mótmælum og mjög gildum rökum, og ALLIR virðast nú sjá eftir þessum framkvæmdum. Og vel á minnst, var ekki einmitt fyrirhuguð uppbygging á Landspítalalóðinni það sem mest kallaði á að þessi gömlu áform kæmu til framkvæmda núna? Af skyssum, sem birtar hafa verið, má sjá, að þessar stórbyggingar við Hringbraut eiga að taka yfir allt svæðið milli nýju Hringbrautarinnar og þeirrar gömlu, allt frá Snorrabraut og niður að Njarðargötu við Hljómskálagarð! Einhver grínari þóttist reyndar sjá að hér væri á ferðinni álver en ekki sjúkrahús!!!

Þá vil ég sérstaklega vekja athygli á veigamestu rökum mínum gegn því að þjappa allri slysa- og bráðamóttöku fyrir höfuðborgarsvæðið saman á einn stað. Á það hefur verið bent, að þar sé verið að setja öll eggin í sömu körfu, og hver veit nema það ástand kunni að skapast t.d. vegna bráðasmits, að einangra þyrfti sjúkrahúsið eða bráðamóttökuna. Hvar er þá varasjúkrahús okkar u.þ.b. 190 þúsund íbúa höfuðborgarsvæðisins? Að ekki sé nú minnst á ástandið með eina slysadeild, ef við stæðum hér frammi fyrir stóru og alvarlegu rútuslysi, rétt eins og gerðist vestur af Stokkhólmi í byrjun þessa árs. Þar dugði ekki minna en þrjú sjúkrahús til að taka á móti slösuðum farþegunum.

Sjúkrahúsið í Fossvoginum, sem er tiltölulega ný og glæsileg bygging, þar sem rýmra er um en á Landspítalalóðinni er í mínum huga miklu álitlegri staður, enda munu dönsku ráðgjafarnir hafa lagt það til á sínum tíma. Þar er einnig þyrlupallurinn, sem er einna mest notaður í meiriháttar bráða- og slysatilfellum, en í slíkum tilfellum skilst mér að hlutur flugvéla og flugvallarins sé langtum minni.

Það er því bjargföst sannfæring mín, að heppilegast sé að byggja þetta fyrirhugaða háskóla- og hátæknisjúkrahús upp á báðum þessum stöðum og í þeim áföngum, sem mest eru aðkallandi. Hins vegar hef ég ekkert við það að athuga að rannsóknarstofum og slíkri starfsemi sjúkrahússins verði komið fyrir á lóðinni við Landspítalann og í nálægð við Háskólann. Aftur á móti vil ég fyrir alla muni vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar þess að hafa hér á höfuðborgarsvæðinu aðeins eina slysa- og bráðamóttöku.

Heilbrigðis- og sjúkrahúsmál eru öryggismál, sem án efa brenna á okkur höfuðborgarbúum og reyndar landsmönnum öllum. Það vekur undrun, að þingmenn okkar Reykvíkinga og reyndar þingmenn alls höfuðborgarsvæðisins virðast ekki láta sig sjúkrahúsmál höfuðborgarsvæðisins miklu skipta. Hins vegar hafa þingmenn landsbyggðarinnar jafnan barist af hörku, ef þeir telja öryggi kjósenda sinna ekki nægilega vel borgið í þessum efnum, enda búa landsbyggðarmenn við góða heilsugæsluþjónustu með gott aðgengi að almennum sjúkrahúsum. En hvað veldur þessu áhuga- og sinnuleysi hjá þingmönnum íbúa höfuðborgarsvæðisins?