• New national hospital

Landspítali til framtíðar

22. apríl 2012

Þriðji hver Íslendingur fær árlega þjónustu á Landspítalanum og endurnýjun hans sem nú stendur fyrir dyrum varðar því alla landsmenn. Við uppbyggingu til framtíðar er hagur sjúklinga hafður í fyrirrúmi enda er hann vel tryggður með ýmsum framförum sem fylgja fyrsta áfanga stækkunar spítalans á næstu árum. 

Þörfin fyrir uppbyggingu spítalans er mikil, m.a vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Sextugir og eldri þurfa langmest á þjónustu sjúkrahúsa að halda og núna eru stórir árgangar eftirstríðsáranna komnir á sjötugsaldur.  Árið 2025 hefur hlutdeild sjötugra og eldri á landinu aukist um 40 prósent.  Landspítalinn getur ekki að óbreyttu tekið við þeirri fjölgun, því er ekki forsvaranlegt að bíða og gera ekkert. 

Starfsemi tvístruð og húsnæði gamalt 
Umbóta er þörf á ýmsum sviðum í starfsemi Landspítala. Spítalinn er afar dreifður en hann starfar á 17 stöðum í borginni. Mikið af húsnæði spítalans er gamalt og úr sér gengið og fullnægir ekki kröfum nútímans. Mikið óhagræði hlýst af flutningum sjúklinga milli stærstu starfsstöðva spítalans í Fossvogi og við Hringbraut.   

Flestir sjúklingar á Landspítala deila sjúkrastofum með allt að fimm öðrum einstaklingum. Ekki þarf að efast um að hversu óþægilegt getur verið að ræða við starfsfólk um viðkvæm einkamál við þær aðstæður. Þá getur orðið ónæðissamt á fjölbýlum og hvíld sjúklinga verður minni en æskilegt er. Ennfremur hafa endurteknar spítalasýkingar verið alvarlegt vandamál. Á legudeildum í nýju húsnæði er gert ráð fyrir að allir sjúklingar dveljist á sérbýlum með salerni. Við það minnkar flutningur sjúklinga, þeir hvílast betur, friðhelgi einkalífs er virt og aukið næði gefst til að ræða meðferð og líðan. Þá hafa rannsóknir sýnt að einbýli hafa í för með sér að sýkingartíðni minnkar um tugi prósenta.

Á endurnýjuðum Landspítala verður mikil bót til batnaðar. Með uppbyggingu við Hringbraut verður bráðastarfsemi spítalans loks sameinuð á einum stað. 

Fleiri umbætur eru í augsýn, svo sem sjúkrahótel á lóð spítalans. Á hótelinu verða 77 herbergi en það mun ekki síst nýtast fólki sem þarf vegna heilsu sinnar eða aðstandenda að dvelja fjarri heimabyggð. 

Minni kostnaður 

Þegar kemur að kostnaðarhluta uppbyggingarverkefnisins má benda á hagkvæmniathugun norska ráðgjafarfyrirtækisins Hospitalitet AS sem unnin var í fyrra. Beitt var sömu aðferðafræði og gert hefur verið við mat á öðrum svipuðum framkvæmdum á Norðurlöndunum. Niðurstaðan var sú að hátt í þrír milljarðar króna sparist árlega í rekstri Landspítala eftir að fyrirhugaðar nýbyggingar hafa verið reistar og starfsemin sameinuð við Hringbraut. Það samsvarar um sjö milljónum króna á dag. Lækkunin stafar fyrst og fremst af betri nýtingu mannafla en einnig sparast flutningskostnaður og leiga.

Undirbúningur staðið lengi
Verkefnið um byggingu nýs Landspítala hefur verið í undirbúningi lengi, en stóru sjúkrahúsin í Reykjavík Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn voru sameinuð árið 2000. Árið 2002 ákváðu stjórnvöld að starfsemi spítalanna skyldi sameinuð við Hringbraut, eftir að starfsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti þá niðurstöðu sína að þar væri heppilegast að starfrækja spítalann.

Verkefnið hefur frá þessum tíma mótast en árið 2005 voru kynntar niðurstöður skipulagssamkeppni vegna spítalans. Danska arkitektafyrirtækið C.F.Möller bar sigur úr býtum og hófst þegar handa við að frumhanna nýjan spítala við Hringbraut. Þarfagreining var gerð og meðal annars fengnir til hennar hátt í 50 notendahópar. Þessi áform voru síðan lögð til hliðar árið 2008.

Í byrjun árs 2009 voru sérfræðingar norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitektar AS og Hospitalitet AS fengnir til að endurmeta verkefnið í ljósi breyttra aðstæðna. Meginniðurstöður þeirra voru þær að mun dýrara væri að gera ekkert en að ráðast í framkvæmdir þegar horft væri til lengri tíma. Sameining bráðastarfseminnar væri forgangsmál og unnt að áfangaskipta verkefninu þannig að hagkvæmni hennar skilaði sér strax. Í framhaldi þessa var spítalaverkefninu komið aftur á rekspöl. Í árslok 2009 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing lífeyrissjóða og ríkisstjórnar um samstarf við undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingar Landspítala.

Sumarið 2010 var kynnt niðurstaða hönnunarsamkeppni vegna spítalaverkefnisins, þar sem SPITAL hópurinn bar sigur úr býtum um frumhönnun 1. áfanga spítalans. Þá var jafnframt stofnað undirbúningsfélagið Nýr Landspítali ohf.  Því var falið það verkefni að standa að nauðsynlegum undirbúningi.


Góður gangur
Góður gangur er í verkefninu um þessar mundir. Frumhönnun spítalans er því sem næst lokið og deiliskipulag vegna nýja spítalans verður til kynningar og endanlegrar úrvinnslu fram á haust. Á sama tíma verður bygging spítalans boðin út og stjórnvöld taka afstöðu til áformanna haustið 2012.  Í 1. áfanga spítalabyggingarinnar er gert ráð fyrir að reisa um 75 þúsund fermetra af nýbyggingum fyrir Landspítala og um 10 þúsund fermetra fyrir Háskóla Íslands.  Með tilkomu nýbygginga verða um 45 þúsund fermetrar eldra húsnæðis teknir úr notkun. Gangi áform eftir má gera ráð fyrir að 1. áfangi nýs Landspítala, með stórbættri aðstöðu fari í notkun árið 2018. Bygging áfangans er mikilvægt skref í þróun sjúkrahúsþjónustu á Íslandi. Hún gerir Landspítala kleift að standa undir nafni sem spítali allra landsmanna.

Hringbraut besti kosturinn
Undanfarið hefur töluvert verið rætt um staðsetningu endurnýjaðs spítala við Hringbraut en það er atriði sem ítarlega hefur verið skoðað af þeim sem farið hafa fyrir verkefninu. 

Starfsnefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 2002 skoðaði kosti og galla þess að sameina spítalann við Hringbraut, í Fossvogi eða á Vífilsstöðum. Álit nefndarinnar var að Hringbraut væri ótvírætt besti kosturinn. Meginrökin voru m.a. þau að þar yrði kostnaður minnstur, m.a. vegna bygginga á lóð spítalans sem áfram væri hægt að nýta til starfseminnar. Aðgengi yrði gott og nálægð við Háskóla Íslands skipti miklu fyrir samvinnu stofnananna.

Árið 2008 fór nefnd á vegum heilbrigðisráðherra aftur yfir staðarvalið og beindi sjónum einkum að umferðarmálum. Sömu staðsetningarkostir voru skoðaðir og árið 2002 en að auki voru kannaðir möguleikar á staðsetningu í landi Keldna.  M.a voru rannsakaðar skipulagslegar forsendur fyrir staðsetningu, spár um umferðarflæði á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi og aðgengismál. Niðurstaðan var sú að ekki væri sýnilegur neinn ávinningur hvað varðar umferðarmagn á höfuðborgarsvæðinu að flytja spítalann frá Hringbraut. Hins vegar byði Hringbrautarsvæðið upp á aðkomu úr mun fleiri áttum en aðrir kostir. 

Hvað varðar almenningssamgöngur var niðurstaða nefndarinnar sú að staðsetning við Hringbraut væri áberandi besti kosturinn. 
Ennfremur var í úttekt norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitektar AS og Hospitalitet AS, sem gerð var eftir efnahagshrun tekið fram að gert væri ráð fyrir að hagkvæmast væri að byggja nýbyggingar á lóð Landspítala við Hringbraut. Þannig mætti nýta þann húsakost sem fyrir er með sem hagkvæmustum hætti.

Nýjustu rannsóknir, m.a ítarlegar ferðavenjukannanir meðal starfsfólks Landspítala, og mælingar á umferð fela sömuleiðis í sér jákvæða umferðarspá fyrir nýbyggingar við Hringbraut. Niðurstöður þeirra eru að umferð á götum í nálægð spítalans aukist ekki verulega við sameiningu starfseininga þar.

Sú ánægjulega þróun hefur líka orðið hjá borgarfulltrúum í Reykjavík að þverpólitísk eining ríkir nú orðið þar um staðsetningu Landspítala til framtíðar við Hringbraut.