• New national hospital

Leggja til að bygging spítalans verði opinber framkvæmd

30. nóvember 2012

Lagt er til að bygging nýs Landspítala við Hringbraut verði hefðbundin opinber ríkisframkvæmd og horfið verði frá svokallaðri leiguleið sem fyrirhugað var að fara, að því er fram kemur í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra lögðu fram á ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Ráðherrarnir leggja til að undirbúið verði frumvarp um breytingar á lögum sem geri opinberu hlutafélagi um byggingu nýs Landspítala (NLSH ohf.) kleift að halda utan um og annast byggingu nýs Landspítala sem fjármagnaður yrði sem opinber framkvæmd að mestu eða öllu leyti. Frumvarpið yrði lagt fram í janúar.

Verði frumvarpið samþykkt og að öðrum skilyrðum uppfylltum yrði þá mögulegt að auglýsa forval framkvæmdanna með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Alþingis.

Lagt er til að næstu mánuði muni fjármála og efnahagsráðuneytið í samráði við NLSH ohf. og Landspítalann fara yfir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir vegna verkefnisins. Athugað verði hvort finna megi svigrúm í langtímaáætlun um ríkisfjármál á næstu árum með það að markmiði að farið verði í verkefnið eða stærstu verkþættina sem opinbera framkvæmd ríkisins. Við þá skoðun verði lögð áhersla á að halda jöfnuði í ríkisfjármálum auk þess sem tekið verði tillit til hagræðingar og hagrænna áhrifa framkvæmdanna.  Í samræmi við niðurstöðu þeirrar skoðunar verði gerð tillaga að því hvernig megi áfangaskipta og forgangsraða mikilvægustu verkþáttum með það að markmiði að þeir muni nýtast spítalanum sem fyrst.

Í desember er gert ráð fyrir að allar skipulagsáætlanir fyrir áætlað byggingarsvæði á Landspítalalóðinni hafi verið samþykktar af hálfu Reykjavíkurborgar og sendar Skipulagsstofnun til yfirferðar og fullnaðar afgreiðslu.

Eðlilegri og hagkvæmari leið 
Samkvæmt leiguleiðinni átti einkaaðili að byggja og reka húsnæðið og leigja það til ríkisins til langs tíma. Fram hafa komið veigamiklar efasemdir um hvort bygging spítalans uppfylli nauðsynleg frumskilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi þegar leiguleiðin er farin, að því er segir í minnisblaðinu. 
 Talið er að hinn innlendi verktakamarkaður hafi varla burði til að fjármagna stærstu verkþættina og bera á þeim fjárhagslega ábyrgð á grundvelli langtímaleigusamnings en eitt frumskilyrði fyrir leiguleiðinni er að áhættan af kostnaði við byggingu og rekstur sé hjá þeim einkaaðila sem byggir og annast rekstur húsnæðisins. 

Í minnisblaðinu segir að jafnvel þótt fram kæmu tilboð í uppbyggingu og fjármögnun í samræmi við leiguleið séu miklar líkur á því að bókhaldsreglur ríkisins mæli svo fyrir um að heildarskulbinding ríkisins færðist eftir sem áður á bækur ríkisins. Þegar svo er verði að ætla að eðlilegra og hagkvæmara sé að ríkið sjái þá sjálft um byggingu spítalans í hefðbundinni opinberri framkvæmd.