Losun gróðurhúsalofttegunda við opinberar framkvæmdir

6. júlí 2022

Nýlega birti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra svar á Alþingi við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni alþingismanni um losun gróðurhúsalofttegunda við opinberar framkvæmdir. Þar kom m.a. fram að nú er unnið að uppfærslu á svokallaðri LCA-greiningu vegna nýbygginga Landspítalans við Hringbraut en þar fæst útreikningur á kolefnisspori bygginga. Gert er ráð fyrir að útreikningurinn liggi fyrir fljótlega. Ekki liggur fyrir hvaða viðmið er átt við sérstaklega varðandi losunina í samanburði við svipuð verkefni í nágrannalöndunum, en sambærilegar og svipaðar byggingar hafa í för með sér sambærilegt eða svipað kolefnisspor.

Þá kom fram að hönnun burðarvirkis nýbygginga við Hringbraut er samkvæmt íslenskum stöðlum. Ekki er val um leiðir heldur er skylda að fara eftir þessum stöðlum. Sett hefur verið sú krafa að meðferðarkjarninn og rannsóknahúsið verði starfhæft í kjölfar jarðskjálfta. Þessi krafa nær til allra innviða og kerfa, en burðarvirkið fylgir íslenskum stöðlum eins og áður sagði. Þessi krafa er í fullu samræmi við erlenda staðla og ráðleggingar fyrir hönnun sjúkrahúsa. Notast er við FEMA-ráðleggingar frá USA. Þessi krafa hefur verið rýnd af bresku verkfræðistofunni Buro Happold og Corpus-hönnunarhópnum sem eru sammála þessari leiðbeiningarleið.

Nýlega var Nýjum Landspítala ohf. úthlutað af hálfu BRE Global Ltd. lokaumhverfisvottun sjúkrahótelsins. Hlaut NLSH ohf. hæstu BREEAM-einkunn sem gefin hefur verið hér á landi fyrir sjúkrahótelið eða 72,9% skor og „Excellent“ einkunn. Í alþjóðlega BREEAM- vottunarkerfinu er lagt mat á marga mismunandi þætti eins og umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar, góða orkunýtni og vatnssparnað, val á umhverfisvænum byggingarefnum, úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, viðhald vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis og lágmörkun ýmiss konar mengunar frá byggingu, t.d. varðandi frárennsli og ljósmengun. Unnið er að umhverfisvottun annarra nýbygginga við Hringbraut