Málstofa um flutning á starfsemi sjúkrahúsa

17. apríl 2023

Þann 13. apríl var haldin málstofa NLSH um flutning á starfsemi sjúkrahúsa. Fyrirlesarar voru frá háskólasjúkrahúsinu i Stavanger og fyrirtækinu HCR í Kaupmannahöfn.

Á málstofunni var rætt um þann undirbúning sem er nauðsynlegur áður en sjúkrahús flytur starfsemi sína í nýjar byggingar og hvernig best er að standa að sjálfum flutningnum.

 „Hjá NLSH, í samstarfi við Landspítala, er verið að hefja undirbúning fyrir flutning starfseminnar í nýjan meðferðarkjarna og rannsóknahús. Líta má á þessa málstofu sem upphaf þeirrar vegferðar. Í Stavanger er unnið að byggingu nýrra bygginga fyrir stóran hluta af starfseminni. Fyrirhugað er að taka byggingarnar í notkun seint á næsta ári. Háskólasjúkrahúsið í Stavanger er um margt líkt Landspítala hvað varðar starfsemi og þjónar nánast sama fjölda íbúa. Það er ómetanlegt fyrir okkur að fræðast um hvernig háskólasjúkrahúsið í Stavanger hefur staðið að sínum undirbúningi m.a. varðandi upplýsingamiðlun og þjálfun starfsmanna. Sjá hvernig breytingar eru gerðar á verkferlum og síðast en ekki síst hvernig sjálfir flutningarnir eru skipulagðir þannig að sem minnst áhætta verði og flutningarnir taki sem skemmstan tíma. Á sama hátt var erindi HCR afar fróðlegt en HCR hefur komið að flutningi fjölda sjúkrahúsa í nýjar byggingar. Unnið er eftir aðferðarfræði HCR í Stavanger,“ segir Ingólfur Þórisson sviðsstjóri tækni- og þróunarsviðs NLSH.

Frett-24.4-seinni