McKinsey skilar heilbrigðisráðuneytinu sviðsmyndagreiningu

25. mars 2022

Heilbrigðisráðuneytið ákvað, á árinu 2021, að tími væri kominn til að uppfæra og rýna þá þarfagreiningu sem til staðar var um uppbyggingu Landspítala m.a. vegna nýrrar samþykktrar heilbrigðisstefnu Alþingis. Gengið var til liðs liðs við ráðgjafafyrirtækið McKinsey, eftir útboðsferli og val á þjónustu. Hröð þróun í heilbrigðisþjónustu undirstrikar einnig mikilvægi þess að greining fari fram á framtíðarþjónustu nýs Landspítala við Hringbraut til að tryggja sem best samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um að rétt þjónusta verði veitt á réttum stað innan heilbrigðisþjónustunnar með gæði, mönnun, skilvirk innkaup og árangur að leiðarljósi.

Ráðgjafafyrirtækið McKinsey skilaði nýlega ítarlegri skýrslu sinni til heilbrigðisráðuneytisins. Skýrslan, sem hlekkur er á hér neðar, er afrakstur þeirrar vinnu en hún hefur að geyma greiningu á helstu áskorunum sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir til ársins 2040 með ólíkum sviðsmyndum og kortlagningu á helstu tækifærum til að ná betri árangri.

Tveir vinnuhópar, skipaðir sérfræðingum víðs vegar að úr heilbrigðisþjónustunni komu að greiningarvinnunni, auk þess sem skipaður var stýrihópur yfir verkefninu með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Landspítala og Nýs Landspítala ohf.

Sjá skýrsluna