Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

20. maí 2015

Nýleg könnun sem unnin er af Maskínu rannsóknum um stuðning við byggingu nýs Landspítala sýnir að fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru fylgjandi því að nýr Landspítali verði byggður á næstu árum.  Hlutfall þeirra sem eru því andvígir er einungis 6%.

Bakgrunnsbreytur í könnuninni sýna að stuðningur eykst með auknum aldri og tekjum.

Þegar spurt er um staðarvalið er niðurstaðan sú að tæplega helmingur aðspurðra segist vera sáttur við að spítalinn rísi við Hringbraut.

Á vef ruv.is er haft eftir Páli Matthíassyni forstjóra Landspítala að hann sé mjög ánægður með þennan afgerandi stuðning þjóðarinnar við að nýr spítali rísi.  Páll segist jafnframt vera mjög ánægður með vaxandi stuðning almennings við að nýr spítali rísi við Hringbraut.  Hann ítrekar mikilvægi þess að við hönnun bygginganna hafi verið gætt að nálægð við núverandi byggingar og að þær falli vel inn í landslagið.

Könnunin, sem unnin er af frumkvæði Maskínu rannsókna, fór fram dagana 28. apríl til 8. maí 2015.

Allar nánari upplýsingar um könnunina er að finna á heimasíðu Maskínu maskina.is