Fréttir


Nettengingar á byggingastigi

4. september 2024

Fyrir nokkru voru lögð drög að þráðlausu neti í meðferðarkjarnanum sem yrði þar til bráðabirgða á meðan á innanhússvinnunni stæði. Ljóst var að farsímasamband yrði víða takmarkað í kjöllurunum þar sem þeir eru djúpt neðanjarðar og einkennast af afar þykkum veggjum og súlum og því þörf á annarri lausn. Með sérstökum hugbúnaði var búið til radíólíkan fyrir þráðlaust net (WiFi, RLAN) sem sýndi bæði útbreiðsluna innan kjallarana og hæðunum en líkanið auðveldaði skipulag á staðsetningu senda og notkun tíðna. Einnig er hægt að taka inn í slík líkön fyrirhugaðar gerðir af notendatækjum, fjölda loftneta þeirra, drægni og við hvaða gagnaflutningshraða má búast. Einnig hvaða áhrif nýjir veggir myndu hafa. Þannig er útkoman fyrirfram þekkt. Uppsetning á fyrsta áfanga netsins er að hefjast.

Þar sem nýjustu teikningar bygginga eru aðgengilegar með rafrænum hætti í símum og spjaldtölvum þá er aðgengi að þráðlausu neti mikilvægt á framkvæmdasvæðum þar sem erfitt er um vik með farsímanet en í vefhugbúnaðinum sem NLSH notar er einnig hægt að skrá inn á teikningar athugasemdir og ljósmyndir samstundis á vinnusvæði. Sama gildir með atvikaskráningu og að skipuleggja tilfallandi verkefni og skjalfesta athugasemdir nánast á rauntíma. Þannig er með fjarskiptatækninni bein og milliliðalaus tenging milli aðila jafnvel þegar um er að ræða rammgerðar íslenskar byggingar.