Níu ár frá skóflustungu sjúkrahótelsins
Í dag eru tímamót því fyrir níu árum var tekin skóflustunga að sjúkrahótelinu sem er fyrsta byggingin sem NLSH sá um framkvæmd á.
Það var þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sem tók skóflustunguna að viðstöddu fjölmenni og meðal gesta voru m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk starfsmanna Landspítala, annarra velunnara hans og áhugafólks um uppbyggingu Landspítalaverkefnisins við Hringbraut. Sjúkrahótelið sem stendur á norðurhluta lóðar spítalans, var tekið í notkun í maí 2019. Hótelið er með 75 herbergi sem taka mið af ólíkum þörfum gesta og þar eru bæði einstaklingsherbergi, fjölskylduherbergi og herbergi fyrir fatlað fólk. Landspítali sér um rekstur sjúkrahótelsins.
Sólrún Rúnarsdóttir, hótelstjóri sjúkrahótelsins, segir að frá opnun hafi stöðug og vaxandi eftirspurn verið eftir þjónustunni.
„Við höfum gert þjónustukannanir hjá okkar skjólstæðingum einu sinni á ári og langflestir 96% er mjög ánægðir eða ánægðir með þjónustuna og aðstöðuna almennt. Bæði hefur verið spurt um aðstöðuna og þjónustuna. Nýting hjá okkur hefur farið fram úr björtustu vonum og er 94-97% nýting flesta virka daga, nýting er aðeins minni um helgar.
Gistinóttum hefur fjölgað jafnt og þétt,“ segir Sólrún að lokum.
Mynd sýnir þróun á fjölda gistinátta.