Nöfn eldri húsa endurvakin á byggingasvæðinu
Á meðan á byggingaframkvæmdunum stendur er vinnubúðabyggð í næsta nágrenni við nýbyggingarnar. Til að auðkenna húsin voru húsanöfn valin sem minna á liðna tíð og voru í næsta nágrenni við Landspítalann. Margir muna efalaust eftir húsunum sem stóðu neðan við Hringbraut, og vitnað er til, en sú húsaþyrping sem er löngu horfin og er enn til umræðu voru Pólarnir svokölluðu, sem samanstóðu af nokkrum húsum sem voru byggð á árunum 1916 til 1918 og voru ætluð fátæku fólki úr Reykjavík. Þegar húsin voru reist voru þau nokkuð utan við bæjarmörkin en með gervihnattamyndum má staðsetja Pólana nokkurn veginn þar sem rampur er frá Snorrabraut niður á Hringbraut að sunnanverðu. Pólarnir hafa komið við sögu þó mjög margir áratugir séu liðnir frá tilveru þeirra. Rithöfundurinn Sigurður A. Magnússon fjallaði um Pólana í ævisögu sinni „Undir kalstjörnu“. Önnur húsanöfn sem eru notuð eru Reykholt, Bólstaður og Kálfakot en aðalbygging NLSH hefur heitið Alaska, til heiðurs gróðrastöðinni við Miklatorg, sem var hringtorg við Snorrabraut. Auk þess er enn á byggingasvæðinu trjálundur, sem nýtur hverfisverndar og er sögulega tengdur Alaska. Myndin með þessari frétt sýnir Pólana.