• New national hospital

Ný bráðadeild á nýjum spítala - framtíð bráðaþjónustu við Landspítala - háskólasjúkrahús

15. júní 2006

Umfang bráðaþjónustu LSH 
Árlega leita um 100.000 manns á bráðamóttökur Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH).  Bráðaþjónusta sjúkrahússins er í dag veitt á fimm stöðum, þ.e. á barnaspítala, kvennasviði, geðsviði og bráðamóttöku við Hringbraut, auk  slysa- og bráðadeildar í Fossvogi.  Í nýjum spítala við Hringbraut er gert ráð fyrir einni sameiginlegri bráðadeild sem mun leiða til mikils hagræðis fyrir starfsemina.  Gera má ráð fyrir því að við opnun hinnar nýju deildar hafi árlegum komum fjölgað í 125.000, um 340 manns daglega eða 14 manns á hverjum klukkutíma.  Það verður nóg að gera á nýrri bráðadeild!  Þetta aukna umfang starfseminnar má að stórum hluta rekja til breytingar á aldursamsetningu þjóðarinnar.  Fjölmennar kynslóðir eftirstríðsáranna eru að eldast og auknum aldri fylgja langvinnir sjúkdómar sem setur miklar kröfur á bráðastarfsemi sjúkrahúsa. 

Þótt LSH sé svæðissjúkrahús Reykjavíkur sinnum við einnig öllu landinu og miðunum í kring.  Í reynd nær upptökusvæði nýs spítala frá Grænlandi til Færeyja.  Ábyrgð LSH í þessu tilliti er mikil og tökum við starfsfólk bráðadeildar hana alvarlega. 

Þjónusta bráðadeilda einkennist af umfangsmiklum rannsóknum við sjúkdómsgreiningar og mati á ástandi sjúklinga.  Að því loknu tekur við meðferð hvort sem sjúklingur leggst inn á spítalann eða er útskrifaður til síns heima.  Þegar þar að kemur þarf ný bráðadeild, eins og nú, á vel þjálfuðu og samhentu starfsfólki að halda.  Einnig þarf deildin að hafa greitt aðgengi að rannsóknardeildum sjúkrahússins og þeirri sérfræðingskunnáttu sem stofnunin býr yfir.  Á nýrri bráðadeild þurfa hlutirnir að gerast skjótt og örugglega.  Að setja bráðastarfsemina undir eitt þak mun gera okkur kleift að mæta kröfum framtíðarinnar. 

Tilkoma bráðalækninga 
Bráðalækningar eru ný sérgrein innan læknisfræðinnar sem er byrjuð að ryðja sér til rúms innan LSH. Bráðalækningar eru svar sjúkrahúsþjónustu við aukinni þörf á öflugri og skilvirkri þjónustu nútíma spítala á “snertifleti hans við umhverfið.”  Bráðalæknar hafa breiða og almenna menntun í klínískri læknisfræði, ekki ósvipaðir heimilislæknum hvað það varðar.  Þeir eru hins vegar sérhæfðir í því að eiga við bráðar uppákomur við greiningu og meðferð sjúklinga. Nokkrir læknar eru við sérfræðinám í bráðalækningum hérlendis og erlendis. Hjúkrunarfræðingar eru einnig byrjaðir að sérmennta sig á sviði bráðahjúkrunar og mynda ásamt bráðalæknum öflugt og samhent teymi fagfólks í bráðaþjónustu LSH. 

Spennandi tímar framundan 
Það eru spennandi tímar framundan fyrir starfsfólk sem sinnir bráðaþjónustu við LSH þegar bráðamóttökur sameinast á einum stað í nýjum spítala.  Starfsfólk núverandi bráðamóttökudeilda hefur í vetur unnið að þarfagreiningu fyrir nýja bráðadeild.  Vissulega verður gerbreyting á aðstöðu til að sinna sjúklingum sem til okkar leita.  Það er hins vegar öllum ljóst, sem að þessu máli koma, að það sem skiptir mestu máli er að þjónustan sem við veitum taki mið af markmiðum nútíma heilbrigðisþjónustu.  Ný bráðadeild verður fullkomlega sjúklingamiðuð, bæði í því að uppfylla einstaklingsbundnar óskir notenda þjónustunnar um greitt aðgengi og þægindi, svo og kröfur um gæði og öryggi.  Á nýrri bráðadeild munum við standa enn betur að vígi til að taka þessari áskorun. 

Nýjungar og ný tækni í bráðastarfsemi 
Örar breytingar eiga sér stað innan læknisfræðinnar.  Við sem höfum unnið að þarfagreiningu fyrir nýja deild bráðalækninga höfum stundum átt í erfiðleikum með að sjá fyrir hvaða ný tækni ryður sér til rúms á næstu árum. Okkur  er hins vegar ljóst að tækninni á eftir að fleygja fram.  Þannig tekur tækni til rannsókna við sjúklingabeð örugglega gífurlegum framförum næstu árin.  Slíkt mun flýta og bæta greiningu sjúkdóma og þar af leiðandi stuðla að réttu vali á meðferð.  Myndgreining með ómskoðun sem gerð er á staðnum hefur rutt sér til rúms á mörgum bráðadeildum erlendis.  Slík tækni verður tekin upp á bráðadeild LSH á næstu árum og mun hafa gífurlega breytingu í för með sér í læknaþjónustu við sjúklinga. 

Ný deild fyrir notendur bráðaþjónustu LSH 
Ný bráðadeild verður fyrst og fremst deild sem verður sniðin að þörfum þeirra sem koma til með að nota þjónustu bráðalækninga.  Hún verður  vettvangur bættrar þjónustu við sjúklinga þar sem beitt verður nýjustu tækni ásamt þverfaglegum og sjúklingamiðuðum vinnubrögðum.  Bráðalækningar hafa eflst til muna á LSH og við opnun nýs spítala og nýrrar bráðadeildar verða sjúklingar og aðstandendur þeirra svo sannarlega varir við það.