• New national hospital

Nýr Landspítali hvers vegna og hvar?

13. júní 2006

Það hefur komið starfsfólki Landspítala - háskólasjúkrahúss á óvart undanfarnar vikur, að neikvæð umræða um nýja byggingu fyrir spítalann skuli hafa skotið upp kollinum og jafnvel freistað nokkurra stjórnmálamanna til að gæla við þá hugmynd að fresta eða endurskoða þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið eftir mikla og vandaða undirbúningsvinnu. 


Að sjálfsögðu er fleira sem þarf að gera í heilbrigðis- og öldrunarmálum en byggja nýtt sjúkrahús og margt af því þolir ekki bið. Það þarf fleiri hjúkrunarheimili fyrir aldraða með bættri aðstöðu fyrir vistmenn. Það þarf aukna og bætta heimaþjónustu, fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, og sértækum þjónustuþörfum þarf að sinna. Taka þarf á ýmsum starfsmanna- og kjaramálum. 

Brýn þörf fyrir nýja byggingu 
En þessar þarfir draga ekki úr mikilvægi þess, að í stað gamalla, úreltra og dreifðra húsakynna LSH komi nýjar byggingar, sem svari kalli tímans. Ekki aðeins vegna mikilvægra tækniframfara, heldur fyrst og fremst til að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks. Til þess eru ætlaðir fjármunir af sölu símans, sem ekki verður varið til rekstrar. 

Ný bygging bætir skilyrði til að leysa vandamál í heilbrigðisþjónustu á hagkvæman og skilvirkan hátt. Óhagræði dreifingarinnar er gífurlegt og birtist daglega í flestum rekstrarþáttum stofnunarinnar. Margir sjúklingar eru á hverjum degi fluttir milli bygginga eftir því sem þarfir breytast í sjúkdómsferlinu. Einn daginn er þörf fyrir sígát (monitor), sem ekki er tiltæk í því húsi þar sem sjúklingurinn er vistaður. Það krefst flutnings. Tveimur dögum síðar þarf sjúklingurinn ítarlega lungna- eða taugarannsókn, sem aðeins er hægt að veita í öðru húsinu. Það kallar enn á flutning. 

Aðalbyggingar sjúkrahúsanna við Hringbraut og í Fossvogi eru úreltar. Aðbúnaður sjúklinga er ekki í takt við tímann. Þar vantar einbýli og hreinlætisaðstöðu fyrir hverja sjúkrastofu. Sífellt múrbrot og breytingar á húsnæði á sér stað, eftir því sem nýjar aðstæður koma upp í stað sveigjanlegra lausna nútíma húsahönnunar. Stundum er reiknað með, að nútíma húsnæðisaðstaða geti sparað 10% í rekstrargjöldum sjúkrahúsa miðað við gamlar og úreltar húsnæðisaðstæður. 

Sjúkrahúsið verður að sameinast í einni meginbyggingu. Að því hníga öll fagleg og rekstrarleg rök. Í dreifingunni felst óhagræði, sóun, áhætta og óboðlegar aðstæður fyrir sjúkt fólk í íslensku nútímasamfélagi, samfélagi, sem hvergi slær af kröfum sínum. Núverandi skipan átti alltaf að vera til bráðabirgða og það liggja engin haldbær rök til þess að festa hana í sessi. 

Hvers vegna við Hringbraut ? 
Þegar ákveðið var að framtíðarspítalinn skyldi rísa við Hringbraut, lágu til þess mikilvæg rök. Skulu þau nú rakin að nokkru:

  • Staðsetning við Hringbraut var langódýrasti kosturinn. Núverandi byggingar við Hringbraut teljast nálægt 60.000 fermetrum samtals. Af þeim eru rúmlega 40.000 m² nýtanlegir til framtíðar: barnaspítalinn, geðdeildin, kvennadeildin að hluta, geðdeildin, K-byggingin, elsta byggingin að hluta o.fl. Í Fossvogi er byggingarmagnið um 30.000 m² og eru 20.000 m² taldir nýtanlegir til framtíðar. Mismunur á nýtilegu byggingarmagni við Hringbraut og í Fossvogi er því um 20.000 m². Ef byggja ætti nýja spítalann í Fossvogi, færu um 9 milljarðar (með búnaði) í að jafna byggingarmagnið, sem þegar er fyrir hendi við Hringbraut. Ef byggja ætti á nýjum stað, t.d. í Vífilsstaðalandi, þyrfti um 18 milljarða til að jafna byggingarmagnið, sem nú er nýtanlegt við Hringbraut, en það er sú fjárhæð sem ætluð er til uppbyggingar LSH af söluverði símans.

Enn eru þá ótaldar þær fjárhæðir, sem þyrfti til að tengja spítala í Fossvogi eða í Vífilsstaðalandi við samgöngukerfi höfuðborgarinnar með jafnöruggum og hætti og flutningur Hringbrautarinnar hefur haft í för með sér. Slík umferðarmannvirki í Fossvogi myndu kosta offjár. Verði Hringbraut lögð í stokk í framtíðinni, vegur lagður um Hlíðarfót eða göng gerð undir Öskjuhlíð, batnar enn aðstaða og samgöngutengsli við spítala við Hringbraut.

  • Tengsli LSH við Háskóla Íslands eru mikilvæg og fara vaxandi með nábýli. Gert er ráð fyrir þátttöku Háskóla Íslands í uppbyggingarstarfinu við Hringbraut, enda átti rektor háskólans aðild að staðarvalinu. Hátt hlutfall vísindagreina, sem háskólamenn birta í erlendum ritrýndum tímaritum, kemur frá læknadeild og fleiri heilbrigðisdeildum háskólans. Stór hluti kennaraliðsins í þessum deildum nýtur starfsaðstöðu á LSH. Tengsli heilbrigðisdeildanna og spítalans við vísindamenn í ýmsum grunngreinum náttúrufræða eru nauðsynleg og vaxandi. Það á einnig við um Íslenska erfðagreiningu og vonandi Háskólann í Reykjavík og aðrar háskólastofnanir, sem kunna að eignast aðstöðu á Vatnsmýrarsvæðinu í framtíðinni.

Hér er einnig um beinharða peninga að tefla, því að vörur tengdar heilbrigðisgreinum eru langstærstur hluti útflutnings Íslendinga á hátæknivarningi. Sambýli vísindamanna úr ýmsum fræðigreinum í háskólaumhverfi hefur alls staðar reynst sú hvatning, sem best hefur dugað til hvers konar nýbreytni og hagnýtra einkaleyfa. Ef nýi spítalinn rís ekki í námunda við háskólann, er hætt við að tengsl spítala og háskóla verði veikari og sameiginleg uppskera fræða og nýjunga rýrari.

  • Nægilegt rými til uppbyggingar. Fyrir 5 árum var enn nægilegt byggingarland í Fossvogi til að rýma auðveldlega nýjan spítala. Síðan hefur mjög verið gengið á heppilegasta byggingarlandið, sem er í svipaðri landhæð og núverandi spítali. Nægilegt rými er neðan spítalans og í stefnu að skógræktarsvæðinu, en það tengist illa núverandi byggingum.

Stundum er því haldið fram, að ekki sé nóg rými til uppbyggingar við Hringbraut. Það er rangt. Ríkisspítalinn í Ósló er stærri en væntanlegur Landspítali og munar a.m.k. 100 sjúkrarúmum og 60.000-70.000 fermetrum. Hann mundi rúmast vel á Hringbrautarsvæðinu. Í Stokkhólmi á að byggja yfir Karolinska spítalann á næstunni.. Hann mun rísa við háskóla, í miðbæ og við umferðargötu. Hann verður líka stærri en LSH, en fær minna rými. Þriðji háskólaspítalinn, sem er í undirbúningi á Norðurlöndum, verður í Þrándheimi. Hann verður stærstur umræddra sjúkrahúsa, með 800 rúm, 200.000 m² og verður einnig byggður á lóð gamals háskólaspítala, í tengslum við heilbrigðisvísindadeildir háskólans og í eða við miðbæ.

  • Miðbæjarlíf. Það er álitamál, hverjum augum menn líta stóran spítala og háskólastofnun nálægt miðbæ höfuðborgar. Skoðun okkar er sú, að slíkar þjónustu- og menntastofnanir muni gæða miðbæ Reykjavíkur auknu lífi, en lifandi miðborg er og hefur verið keppikefli allra stjórnmálaflokka hingað til.

Vandaður undirbúningur. Þegar staðarval fyrir nýjan spítala var á dagskrá komu ýmsir kostir til greina. Að lokum tókst einhugur um málið og vísast m.a. til ályktana starfsmannaráðs, læknaráðs og hjúkrunarráðs LSH auk hinnar formlegu niðurstöðu heilbrigðisyfirvalda. Staðarvalið fékk ítarlega og vandaða umfjöllun og er löngu að baki. Sú ákvörðun að leggja til hliðar fjármuni til að byggja nýtt hús yfir sameinaðan Landspítala - háskólasjúkrahús var skynsamleg og hagkvæm og eðlilegt svar við kalli tímans um boðlega aðstöðu fyrir sjúklinga á Íslandi 21. aldar. Það væri mikið ógæfuspor að hvika frá þeirri ákvörðun eða tefja framkvæmd hennar.

Niðurlag 
Allir eru vitanlega frjálsir að skoðunum sínum um þetta efni eins og önnur. Það er hins vegar leitt, ef menn taka fljótfærnislega afstöðu til uppbyggingar LSH án þess að hafa kynnt sér rökin fyrir henni og fyrir framtíðarstaðsetningu spítalans. Sérstaklega er það skaðlegt, þegar stjórnmálamenn eiga í hlut. Sjúklingar og starfsfólk spítalans, sem lengi hafa búið við óboðlegar aðstæður, eiga betra skilið. 

Höfundar eru yfirlæknar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands. 

Birtist  einnig í Morgunblaðinu 12. janúar 2006