• New national hospital

Nýr LSH - staðhæfingar

4. maí 2012

Í nýlegri grein Guðjóns Baldurssonar, eru ýmsar staðhæfingar úr grein minni sem birtist í Fréttablaðinu 26. apríl sl. dregnar í efa. Guðjón nefnir ein sjö atriði. Nú er það svo að við Guðjón erum algjörlega á öndverðum meiði gagnvart uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Að hefja ritdeilu við Guðjón, er því svo fjarri mér. Hins vegar ber að taka fram að ég hef fylgst með þessu verkefni um langa tíð og komið að því með einum og öðrum hætti, bæði sem þingmaður og heilbrigðisráðherra og allan þann tíma hef ég verið sannfærð um mikilvægi þess að stíga þau skref sem unnið er að í verkefninu um nýjan Landspítala.

Á þessum langa tíma hefur ríkt pólitísk sátt um verkefnið og er þess skemmst að minnast að þegar lög nr. 64/2010, sem veittu ráðherra heimild til að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, voru samþykkt á Alþingi þá greiddu allir þingmenn sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni atkvæði með lögunum nema fjórir sem sátu hjá. Þeir sem samþykktu lögin komu úr öllum flokkum. Á þann hátt var enn og aftur tryggð þverpólitísk samstaða um nýjan LSH. Þá ber að halda til haga að fyrir undirritun samninga að loknu útboði skal síðan leita samþykkis Alþingis með almennum lögum. Málið kemur því aftur inn á borð Alþingis.

Annað sem kom fram í grein minni byggir á tölulegum upplýsingum eða öðrum rekjanlegum staðreyndum sem hægt er finna á verkefnavef nýs Landspítala. Að öðru leyti vísa ég því til fyrri greinar minnar. Við skulum ekki gleyma því að markmiðið með uppbyggingunni við Hringbraut er að sjúklingurinn sé ávallt í öndvegi. Við munum fá fram aukna hagkvæmni í rekstri með því að sameina kraftana og nýta þekkingu, mannafla og tæki á sem bestan hátt. Samþætting háskóla og sjúkrahúss mun stuðla að áframhaldandi þróun í heilbrigðisvísindum. Þá mun spítalinn verða áfram eftirsóknarverður vinnustaður. Það er því öllum í hag að nýr LSH rísi, nýtt og stækkað þjóðarsjúkrahús við Hringbraut.