• New national hospital

Nýtt háskólasjúkrahús frá grunni - eða á gömlum grunni?

2. júní 2006

Eins og öllum er kunnugt stendur fyrir dyrum uppbygging á nýju húsnæði fyrir Landspítala neðan gömlu Hringbrautarinnar í Reykjavík. Deilur hafa risið um staðsetninguna eftir að deiliskipulag var kynnt og í ljós kom að fyrirhuguð er gríðarstór, fremur lágreist bygging, sem mun dreifast yfir víðáttumikið flæmi í Vatnsmýrinni. Í umræðunni vill þó gleymast hvað rekur menn til verksins - og ekki síður, að annar valkostur er fyrir hendi á lóð Landspítala við Hringbraut, en sá valkostur hefur næstum enga umræðu fengið.

Þarf nýtt sjúkrahús?

Svarið er já. Ekki til þess að byggja höll yfir óskilgreinda "hátækni" framtíðarinnar heldur til þess, að skapa sjúklingum viðunandi aðstöðu. Um lítilsvirðandi aðstöðu sjúklinganna bera vitni fréttir af fjölmörgum sjúklingum liggjandi á göngum sjúkrahússins. Staðallinn er langt fyrir neðan staðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við og aðstaðan er brot á lágmarks mannréttindum sjúklinga.

En fleiri vandamál steðja að LSH. T.d er núverandi dreifing sérgreina LSH á milli húsa og bæjarhluta miklu stærra vandamál heldur en af er látið. Dreifingin hindrar eðlilegt samráð lækna um alvarleg veikindi sjúklinga og krefst tafsamra og jafnvel lífshættulegra flutninga milli bæjarhluta. Dreifingin kemur sannanlega í veg fyrir hagræðingu, en á það var bent strax við sýndarsameiningu sjúkrahúsanna fyrir sex árum, að sameining næðist ekki með sundrun sérgreina læknisfræðinnar frá hver annarri.

Vandamálin þarf að leysa, spurningin er hvernig? Það er einfaldlega ekki mögulegt í núverandi húsnæði, sem hentar illa og er dreift um bæinn.

Niðurstaða dómnefndar var sú, að byggt skyldi á lóð gamla Landspítalans við Hringbraut en ekki í Fossvogi og ekki á Vífilsstöðum. Þessi grein gengur út frá því að þeirri staðsetningu verði ekki breytt. Ákvörðunin tengdist m.a. því, að á Hringbrautarlóðinni væru fleiri nýtanlegir fermetrar eldri bygginga (70.000) heldur en í Fossvogi (30.000). Þar kom einnig til álita miklu stærri lóð til framtíðar (eftir flutning Hringbrautar), nýbyggður barnaspítali, nálægð við Háskóla, nálægð við flugvöll og fyrirhuguð bygging lífvísindaseturs Háskólans í Vatnsmýrinni. Að lokum voru mikilvæg þau sjónarmið, að stefnt skyldi að fjölgun starfa nálægt miðborg Reykjavíkur. Þar að auki býður stærð lóðarinnar upp á valkosti til framtíðar - sé vel farið með hana.

Hvernig hús er hentugt?

Hugmyndasamkeppni hefur farið fram um deiliskipulag Hringbrautarlóðarinnar og var ákvörðun nýrrar dómnefndar kynnt í nóvember. Það kom höfundi á óvart, að allir hönnuðirnir gera ráð fyrir því að byggt verði nýtt hús á víðáttumiklum nýjum grunni neðan gömlu Hringbrautarinnar. Gárungarnir kalla það Versali í Vatnsmýrinni og húsið er að áliti þess sem þetta ritar ekki hentugt til lækninga vegna fjarlægða. Teikningarnar eru svo stórar í sniðum og dreifðar yfir svo stórt flæmi að mörgum hefur brugðið í brún. Lítið tillit virðist vera tekið til forsendna staðarvalsins, þ.e. fleiri nýtanlegra bygginga við Hringbraut heldur en í Fossvogi. Umræða hefur eðlilega hafist á ný um mögulega staðsetningu sjúkrahússins í Fossvogi. Efasemdir hafa komið fram um hagkvæmni hússins í læknisfræðilegu tilliti. Jafnvel hefur borið á þeim sjónarmiðum, að núverandi húsnæði sé fullnægjandi en svo er alls ekki, jafnvel þótt létt verði á álagi vegna langlegusjúklinga.

Svo vill til, að annar raunhæfur valkostur er á lóðinni (þ.e. Hringbrautartillaga 1, sem White arkitektar settu fram á sínum tíma, þ.e. efri hluti lóðarinnar, ofan við gömlu Hringbrautina) en ekkert hefur verið um hann fjallað. Þessi grein er rituð í þeim tilgangi, að vekja athygli ráðamanna á valkostinum ef þeir vildu staldra við. Þessi valkostur væri að áliti undirritaðs snöggtum hagkvæmari í byggingu, hann myndi henta mun betur læknisfræðilega, gömlu húsin myndu mörg hver nýtast um árabil, og þar að auki myndi staðsetningin hafa miklu minni skipulagsleg áhrif á nærliggjandi byggð.

Þótt skrifað hafi verið undir samninga og þarfagreining sé hafin, er enn hægt að breyta ákvörðunum um staðsetningu innan lóðarinnar án þess að þarfagreiningin sé unnin fyrir gýg. Húsið hefur ekki verið teiknað enn. En klukkan tifar.

Nýtt sjúkrahús á gömlum grunni

Valkosturinn sem um ræðir er smærri í sniðum, í það minnsta til að byrja með, heldur en fyrirhuguð jarðnæðiskrefjandi dreifbygging. Hann gerir ráð fyrir meiri nýtingu á núverandi húsnæði og lóð við Hringbraut. Hann gerir ráð fyrir því að bráðaþjónustu verði fyrst komið undir eitt þak milli gamla spítalans og geðdeildar (með 6-7 hæða nýbyggingu þar sem gamli hjúkrunarskólinn stendur nú) og síðan með stöðugri uppbyggingu sjúkrahússins í minni einingum (og niðurrifi eldri bygginga eftir þörfum hvers tíma). Ekki verður heldur nauðsynlegt, að rífa nýleg hús eins og t.d. Læknagarð Háskólans (sk. "Tanngarð"), eins og núverandi plön gera ráð fyrir, heldur má nýta þá byggingu sem hluta nýs lífvísindaseturs, þar sem kennsla heilbrigðisstétta fái inni.

Valkosturinn byggir upp og niður, en ekki austur og vestur. Valkosturinn er að áliti þess sem þetta ritar miklu hentugri og tryggir miklu auðveldari för sjúklinga og starfsfólks og flutning tækja um sjúkrahúsið heldur en dreifbyggingin sem er í undirbúningi. Forsenda valkostsins er að NA-SV flugbraut verði aflögð endanlega því þá verður minni hæðartakmörkun á nýbyggingunni en á núverandi byggingum. Valkosturinn myndi líka binda hendur starfsmanna framtíðarinnar minna í húsnæðismálum heldur en þær tillögur, sem nú eru uppi því áfram yrði mikið pláss á lóðinni neðan núverandi Hringbrautar.

Hvað vantar núna?

Leysa þarf eftirfarandi húsnæðisvanda:

  1. Vöntun er á mannsæmandi sjúkrastofum fyrir bráðveikt fólk.
  2. Sameina þarf bráðamóttöku á einn stað og mynda bráðaþjónustukjarna.
  3. Allar stærri skurðstofur þurfa að vera nálægt bráðakjarna.
  4. Gjörgæsludeildir þurfa að vera hjá bráðakjarna.
  5. Myndgreining og bráðarannsóknastofur þurfa að vera hjá bráðakjarna til að tryggja besta nýtingu þeirra og dýrs tækjabúnaðar.
  6. Reisa þarf nýjar legudeildir fyrir bráðveika (s.s. skurðlækningadeildir og lyflækningadeildir) nærri bráðakjarna.
  7. Ófullnægjandi bílageymslur eru fyrir sjúklinga, gesti og starfsfólk.
  8. Veruleg vöntun er á dag- og göngudeildaraðstöðu til rannsókna og meðhöndlunar án innlagnar.
  9. Veruleg vöntun er á funda- og kennsluaðstöðu.
  10. Ófullnægjandi skrifstofuaðstaða er fyrir veitendur sjúkraþjónustunnar.
  11. Vöntun er á ódýrari "fráflæðismöguleikum" fyrir sjúklinga sem þurfa ekki bráðaþjónustu lengur (þ.e. endurhæfingar- og öldrunarstofnanir).

Bráðasta þörfin, sem leysa þarf með nýrri húsbyggingu Landspítala, er að leysa þau vandamál sem merkt eru nr. 1-7, sjá uppdrátt. Með þeim hætti myndi losna mikið pláss í núverandi legudeildabyggingum við Hringbraut, sem nota mætti a.m.k. tímabundið fyrir neðangreinda starfsemi:

  • Dag- og göngudeildarþjónustu
  • Skrifstofuaðstöðu og ýmsar rannsóknastofur fyrir sérgreinar læknisfræðinnar o.fl., helst í nálægð við göngudeildarþjónustuna
  • Skrifstofur annarra starfsstétta
  • Funda- og kennsluaðstöðu að hluta til

Síðar má endurbyggja þessi hús eftir þörfum hvers tíma. Framtíðin mun kunna okkur þakkir fyrir að fá einhverju ráðið um aðstöðu sína.

Lokaorð

Þessi tillaga er sett fram af því ég tel hana kunna að vera hagkvæmari í læknisfræðilegu tilliti og uppbyggingu heldur en deiliskipulag það sem unnið er eftir núna. Hægt væri að leysa brýnan vanda miklu hraðar og líklega með minni tilkostnaði. Eldri hús myndu að auki nýtast betur og að mínu mati yrði minni röskun á skipulagi Vatnsmýrarinnar og nærliggjandi byggð í Þingholtum heldur en ef byggt verður eftir núverandi deiliskipulagi.