Nýtt Sjúkrahótel - mikilvægur hlekkur í heildaruppbyggingunni við Hringbraut

24. ágúst 2016

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um rekstur og þjónustu nýs sjúkrahótels ,sem verið er að byggja við Landspítala Hringbraut, hefur skilað skýrslu til ráðherra.

„Nýja Sjúkrahótelið verður mjög mikilvægt öllum landsmönnum og mun auka gæði á þjónustu til sjúklinga og aðstandenda þegar það verður tekið í notkun vorið 2017, segir Þorkell Sigurlaugsson sem var formaður nefndar heilbrigðisráðherra um rekstur nýs Sjúkrahótels“.

Sjúkrahótelið verður tekið í notkun næsta sumar og leysir brýna þörf sjúklinga fyrir gistiaðstöðu og mun styðja mjög við starfsemi Landspítala.

Nánar um Sjúkrahótelið:

Þar verða 75 herbergi en til samanburðar voru 25 herbergi í notkun á hótelinu við Ármúla.
Með rekstri hótelsins má ná fram verulegri hagræðingu innan Landspítala og heilbrigðiskerfisins almennt. Stórbætt þjónustu verður við sjúklinga sem áður var eingöngu hægt að sinna að hluta.
Náin tengsl við kvennadeild Landspítala, Barnaspítala og fjölmargar aðrar deildir spítalans eykur notagildi hótelsins. Þar verður lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og gæði í veitingaþjónustu, heilbrigðistengdri þjónustu og að veita félagslega ráðgjöf, endurhæfingu og aðra stoðþjónustu. Aðstaða verður einnig fyrir aðstandendur sjúklinga en það getur verið mikilvægur þáttur í bataferli sjúklinga.

Tillögur starfshópsins um starfsemi hótelsins:

Starfshópurinn leggur til að tvenns konar gististarfsemi verði á hótelinu.
Annars vegar fyrir þá sem ekki eru innritaðir á Landspítala, en þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar.
Hins vegar er hótelið fyrir sjúklinga sem eru innritaðir á Landspítala en þurfa ekki að liggja á dýrum legudeildum spítalans. Þeir geta verið að jafna sig eftir aðgerð, eru í virkri meðferð eða sækja dag- og göngudeildarþjónustu og þurfa jafnfram eftirlit og stuðning. Í öllum tilfellum eiga sjúklingar samt að vera sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs.

Hótelið mun valda straumhvörfum fyrir sjúklinga, ekki síst fyrir þá sem búa úti á landi og þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur.

Starfshópurinn leggur til að hótelið taki mið af starfsemi sambærilegra sjúkra- og sjúklingahótela á Norðurlöndum. Annað sem einkennir aðstæður hér á landi er takmörkuð heilbrigðisþjónustu víða um land. Tækifærin sem felast í nálægð við Reykjavíkurflugvöll meðan hann er í Vatnsmýrinni skipta hér einnig máli.

Skýrslu starfshópsins má sjá hér