• New national hospital

Nýr Landspítali í augsýn

9. maí 2012

Stefnt er að því að stærri Landspítali verði að veruleika á næstu árum með frekari uppbyggingu spítalans við Hringbraut. Fyrirhuguð stækkum felur í sér brýnar úrbætur í heilbrigðismálum þjóðarinnar, en nefna má að starfsemi spítalans fer nú fram á 17 stöðum í nærri  100 húsum. Með uppbyggingunni við Hringbraut er ætlunin að sameina í 1.áfanga alla bráðastarfsemi sem rekin er við Hringbraut og í Fossvogi auk þess sem allar rannsóknarstofur spítalans sem nú eru tvístraðar í mörgum húsum víða um bæinn verða sameinaðar í einu húsi á spítalalóðinni. Um þessar mundir er unnið að hönnun  1. áfanga spítalans en þess er vænst að hann verði tilbúinn árið 2018. 

Undirbúningur að stækkun Landspítala hefur staðið í rúman áratug. Sögu verkefnisins má rekja til sameiningar stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala í mars 2000. Þá varð ljóst að ekki yrði lengur vikist undan því að hefjast handa ef markmið sameiningarinnar um eflingu faglegrar þjónustu og aukið hagræði ætti að ná fram að ganga.

Minnstur kostnaður við Hringbraut
Hafist var handa við undirbúning verksins en meðal þess sem fyrst var skoðað var hver væri heppilegasta staðsetningin fyrir stærri Landspítala. Sérstök starfsnefnd vegna nýbyggingarinnar á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti árið 2002 þá niðurstöðu sína að starfsemi sjúkrahússins skyldi öll sameinuð við Hringbraut. Rök sem helst voru nefnd fyrir staðsetningunni voru að henni fylgdi minnstur kostnaður, nálægð væri við Háskóla Íslands, möguleikar væru til áframhaldandi uppbyggingar og gott aðgengi yrði að svæðinu. 

Í framhaldinu ákváðu stjórnvöld að framtíðaruppbygging Landspítala yrði við Hringbraut. Á næstu árum var unnin ýmis vinna til undirbúnings verkefninu.  Í októberlok 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd til að annast skipulagningu húsnæðis fyrir spítalann á Hringbrautarsvæðinu. Árið 2004 var skýrsla nefndarinnar um heildarkostnað framkvæmdanna og áfangaskiptingu þeirra til 14 ára kynnt, ásamt tillögu að alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um skipulag lóðarinnar. Í ársbyrjun 2005 gáfu stjórnvöld grænt ljós á samkeppnina, forval var auglýst og sóttu 18 fjölþjóðlegir hópar sérfræðinga um þátttöku. Sjö stigahæstu kepptu um skipulagið.

Niðurstaða samkeppninnar lá fyrir í október 2005. Teymi undir forystu arkitektanna C.F.Møller varð hlutskarpast og var í kjölfarið gerður samningur við vinningshafa um áframhaldandi vinnu við verkefnið. M.a var framkvæmd þarfagreining þar sem gerð var grein fyrir áætlaðri starfsemi árið 2025. Frumhönnun verkefnisins var vel á veg komin.


Breyttar aðstæður og endurskoðun verkefnis
Í kjölfar þess að haustið 2008 sköpuðust nýjar og áður óþekktar aðstæður í þjóðfélaginu þótti ástæða til að endurskoða niðurstöðu frumathugunar og endurmeta forsendur verkefnisins. Sérfræðingar norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækjanna Momentum Arkitektar AS og Hospitalitet AS voru fengnir til verksins og skiluðu þeir niðurstöðu sinni í apríl 2009. Meginniðurstaða  þeirra var sú að mun dýrara væri að „gera ekkert“ en að ráðast í framkvæmdir þegar til lengri tíma er litið. 

Í niðurstöðu endurskoðunarinnar kom jafnframt fram að hagkvæmast væri að stækka spítalann á lóð Landspítala við Hringbraut. 

Viljayfirlýsing lífeyrissjóða, ný samkeppni
Í framhaldi af niðurstöðu norsku ráðgjafanna var hafist handa við að leita leiða til að koma spítalaverkefninu aftur á rekspöl.  Í nóvember 2009 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing meginþorra lífeyrissjóða landsins og ríkisstjórnarinnar um samstarf við undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingar Landspítala Í framhaldinu skipaði heilbrigðisráðherra verkefnisstjórn til að vinna að framgangi málsins. Fólst vinna hennar m.a. í undirbúningi hönnunarsamkeppni og hönnunarútboðs vegna spítalaverkefnisins og stofnun undirbúningsfélagsins Nýr Landspítali ohf. (NLSH). Félaginu var falið það verkefni með lögum að standa að nauðsynlegum undirbúningi, láta bjóða út byggingu nýs Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut og semja um að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu að loknu útboði. Samið var við vinningshafa samkeppninnar, SPITAL ráðgjafateymið,  um gerð deiliskipulags, forhönnun og gerð alútboðsgagna fyrir framkvæmdina. Sú vinna hefur staðið undanfarið rúmt ár.  Unnið er í nánu samstarfi við 16 notendahópa Landspítala og Háskólans þar sem á annað hundrað starfsmenn taka þátt.  Drög að deiliskipulagi vegna framkvæmdanna lágu fyrir síðastliðið haust og eru þau nú til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum.  Vonir standa til að deiliskipulagið öðlist gildi í haust.  

Í 1. áfanga spítalabyggingarinnar er gert ráð fyrir að reisa 75.000 fermetra af nýbyggingum fyrir spítalann og um 10.000 fermetra fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.  

Nýja byggðin sem á að rísa er að mestu á suðurhluta lóðarinnar og inniheldur m.a. meðferðar- og bráðakjarna þar sem m. a. eru tæp 200 sjúkrarúm, sem öll eru í einbýlum. Þar verða jafnframt rannsóknarhús, sjúkrahótel og húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, auk bílastæðahúss. Dag- og göngudeildir auk 180 sjúkrarýma til viðbótar er áformað að reisa í síðari áfanga. Þörfin fyrir nýbyggingar er mikil en gríðarlegt óhagræði og mikill kostnaður fylgir því að hafa spítalastarfsemina jafn dreifða og raunin er nú. Þá uppfyllir gamalt húsnæði ekki þau skilyrði sem þarf. fyrir nútíma sjúkrahúsrekstur þar sem salarhæð og burðarþol er takmarkandi auk margs annars.


Sameiningar mesti ávinningurinn
Einn mesti ávinningurinn af nýjum Landspítala verður sameining starfseininga á einum stað. Í svonefndum meðferðarkjarna eða aðalbyggingu spítalans sameinast öll þyngsta og tæknivæddasta starfsemi sjúkrahússins.  Það sparar umtalsverða fjármuni, t.d. með fækkun sólarhringsvakta. 

Ein bráðamóttaka verður þar í stað fimm nú. Skurðstofur, myndgreining og gjörgæsludeild verða á einum stað, en þannig má samnýta betur tæki og krafta starfsfólks.  Meðal þess sem verður að finna í meðferðarkjarnanum eru átta legudeildir með nær 200 rúmum. 
Þá verða í meðferðarkjarnanum teknar í notkun ýmsar nýjungar í lækningum. Nefna má svonefndan jáeindaskanna (PET scan) sem stóreykur möguleika til greiningar á einkennum og meðferðar ýmissa sjúkdóma, einkum krabbameina.


Víða hugað að nútímalegri þjónustu
Ísland er ekki eina landið sem um þessar mundir treystir stoðir heilbrigðisþjónustunnar með nýbyggingum spítalahúsnæðis sem uppfyllir kröfur nútímans. Hið sama er uppi á teningnum í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við. Víða í nágrannalöndunum hafa stæðilegar sjúkrahúsbyggingar sem náð hafa nokkurra áratuga aldri verið rifnar til að rýma fyrir nýbyggingum sem þykja nauðsynlegar til að halda í við alla þróun. Dæmi um slíkt er að finna í Þrándheimi þar sem aðalbygging sjúkrahússins sem lokið var að byggja 1972 var rifið til grunna. Barnaspítalinn þar sem var tekinn í notkun 1976  og fleiri byggingar milli 1959 og 1976 allar rifnar. Mestur hluti Akershus sjúkrahússins í Ósló sem rifinn var til að koma fyrir nýju sjúkrahúsi var reistur eftir 1960. Svipaða sögu er hægt að rekja frá nær öllum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum.

Sérbýli fyrir alla sjúklinga 

Ljóst er að löngu tímabær bót fæst fyrir sjúklinga með stækkun Landspítala. Nefna má að gert er ráð fyrir sérbýlum með salernum fyrir alla sjúklinga en þess eru dæmi að sjúklingar deili 2-3 salernum á heilli legudeild. Sýnt hefur verið fram í rannsóknum á að með einbýlum minnkar sýkingartíðni um tugi prósenta. Þá hafa þau í för með sér minni flutninga á sjúklingum, betri hvíld fyrir þá og aukið næði til að ræða meðferð og líðan, svo dæmi séu nefnd.

Sýni send á örskotsstundu
Nútíma tækni verður nýtt á nýjum Landspítala eins og hagkvæmt er til að draga sem mest úr flutningum sjúklinga og ferðum starfsfólks. Þar má t.d. nefna rörpóst. Með honum er hægt að senda mikilvæg gögn, s.s lífsýni, blóð og lyf.  Sendingarnar skila sér á áfangastað á innan við mínútu.  Þetta er mikið öryggisatriði og bylting frá núverandi fyrirkomulagi þar sem stundum þarf að sendast með sýni bæjarhluta á milli. 

Á nýjum spítala verður sorp og lín sent um sjálfvirkt flutningakerfi til miðlægrar flokkunarstöðvar. Þetta er mikilvægt hreinlætismál, umhverfisvænt fyrirkomulag og sparar mannafla. Þá verður sjálfvirkt flutningakerfi fyrir matarflutninga í nýja spítalanum.


850 manns í vinnu þegar mest er
Áætlanir verkefnastjórnar miða að því að alútboðsgögn verði tilbúin í  byrjun júní með fyrirvara á samþykki deiliskipulags og að Alþingi ákveði að halda málinu áfram. 

Gert er ráð fyrir að bjóðendur verði valdir með forvali til þátttöku í lokuðu útboði.  Útboðinu verður skipt í eftirfarandi sex áfanga; Meðferðarkjarni, Rannsóknarhús, Sjúkrahótel, Háskóli, Bílastæðahús og undirbúningsframkvæmdir.  Miðað er við að útboði og samningagerð verði lokið fyrir árslok og að framkvæmdir geti hafist snemma á næsta ári. 
Framkvæmdakostnaður við þessa verkáfanga er áætlaður um 45 milljarðar króna og um 2.100 ársverk.  Flestir verða starfsmenn við framkvæmdina á árinu 2016, um 850 talsins. 

Áætluð verklok 1. áfanga eru á árinu 2018.