Fréttir


Öryggismál eru forgangsmál hjá NLSH

21. ágúst 2024

Bygging Nýs Landspítala er eitt stærsta byggingarverkefni sem ráðist hefur verið í hér og mikilvægi þess að tryggja öryggi við hvert skref verður ekki ofmetið.

Með mikilli áherslu á öryggismál stefnir NLSH að því að vera fyrirmynd í stjórnun öryggismála á stórum byggingarsvæðum. Til að vernda nærumhverfi framkvæmdasvæðisins fyrir hættum innan þess er svæðið aflæst öryggissvæði.

Þeir einir hafa aðgang að byggingasvæðinu sem vinna við framkvæmdina og sem hafa staðist rafræn öryggisnámskeið á vegum verkkaupa. Fleiri en starfsmenn eiga þó erindi inn á svæði þar sem framkvæmdaskrifstofur verkefnisins eru staðsettar og er það svæði því sérstakt öryggissvæði, sem er opið á skrifstofutíma. Strangar reglur eru gerðar um öryggisráðstafanir og notkun persónuvarnarbúnaðs innan byggingasvæðisins.

Á vegum verkkaupa eru farnar a.m.k. daglegar eftirlitsferðir á vegum verkkaupa þar sem öryggis- og umhverfismál eru höfð til hliðsjónar. Þá fer einnig fram daglegt eftirlit öryggisstjóra verktaka. Komi fram athugasemdir í eftirlitsferðum á vegum verkkaupa eru stofnuð svokölluð úrbótaverkefni, sem eru send til verktaka til úrlausnar. Frá ársbyrjun 2021 hafa verið skráð og skilgreind 1720 úrbótaverkefni á sviði öryggismála í framkvæmdaverkefnum NLSH, en auk þess hefur fjöldi úrbóta ekki verið skráður, því leyst hefur verið úr málum á staðnum eftir samtal.

Útboðsverkin hingað til hafa verið jarðvinnuverk, uppsteypuverk, utanhússklæðning og þakfrágangur. Eðli úrbótaverkefna á sviði öryggismála endurspegla þá áhættu sem eru í slíkum verkum. Flest úrbótaverkefni snúa að fallhættu (53%), hættu á því að hrasa (12%), verða fyrir/eða undir einhverju (9%) og áhættu í umhverfinu (10%).

Háð stærð og flækjustigi verkefna eru vikulega eða hálfsmánaðarlega haldnir svokallaðir ÖHU fundir með ábyrgðarmönnum öryggismála í hverju verki. Á þessum fundum eru m.a. rædd virkni stjórnunar ÖHU mála hjá verktaka, skipulag vinnuverndarstarfs á vinnusvæðinu, virkni morgunfunda, framlagðar aðferðarlýsingar verka og áhættugreiningar þeim tengdar, staða yfirferðar á öryggisbúnaði, umferðaröryggi og fleira.

Hætta er á að þar sem margir verktakar vinna á þröngu framkvæmdasvæði geti komið til árekstra þeirra á milli og því er haldnir vikulegir samræmingarfundir með verktökum á svæðinu til þess að leysa úr slíkum málum. Þegar hafa verið haldnir tæplega eitthundrað fundir af þvi tagi frá árinu 2021.

Slys og næstum því slys er skráð í verkefninu. Á framkvæmdatímanum hafa verið skráð 21 slys sem eru tilkynningaskyld til Vinnueftirlitsins, en það eru slys þ.s. starfsmaður er óvinnufær í lengri tíma en einn dag.

„Við hjá NLSH erum á heildina litið ánægð hversu vel hefur tekist til með öryggismálin enda hafa þau frá upphafi verið forgangsmál hjá félaginu. Hér á framkvæmdasvæðinu koma margir að og mörg úrlausnarverkefni á hverjum degi ,“segir Hildur Hrólfsdóttir, umhverfis - og öryggisstjóri NLSH.